Slökkviminjasafnið lokar eftir Ljósanótt
Slökkviminjasafn Íslands mun skella aftur dyrum sínum í hinsta sinn eftir Ljósanótt en safnið hefur haft aðsetur hjá Byggðasafni Reykjanesbæjar í Rammahúsinu á Fitjum. Nú er Reykjanesbær að fara að selja fasteignina og í kjölfarið verður Slökkviminjasafnið því húsnæðislaust.
Á Facebook-síðu safnsins segir: „Í upphafi hafði enginn trú á því að tveir slökkviliðsmenn gætu opnað safn um sögu slökkviliðsmanna á Íslandi en í dag höfum við verið að í tíu ár og höfum við fengið mikinn stuðning frá Reykjanesbæ. Nú er komið að því að húsið verður selt og við þurfum að undirbúa afhendingu á hlutunum sem eru á safninu til eigenda. Við lokum safninu með trega en samt með gleði í hjarta yfir því að þetta var hægt. Það hefur gefið okkur mikið og okkur hefur aldrei liðið illa á safninu Við höfum fengið gesti frá mörgum stöðum í heiminum og ásamt Íslendingum sem hafa komið þá hefur enginn af þeim farið ósáttur út. Safnið er einstakt og ekki bara af því að við segjum það heldur gestirnir sem hafa heimsótt okkur og þá út af því að það segir sögu slökkviliðsmanna á öllu Íslandi en á svona söfnum erlendis eru þau yfirleitt borgarsöfn. Þegar við fórum í þessa vegferð þá sáum við að saga slökkviliðsmanna var að glatast og við vildum varðveita hana en nú mun hún sennilega glatast þar sem engin vill halda uppá og varðveita þessa sögu og sýna hana.“
Það eru þeir Ingvar Georgsson og Sigurður Lárus Fossberg Sigurðsson sem hafa haft veg og vanda að Slökkviminjasafninu og Ingvar sagði í samtali við Víkurfréttir þeir félagar séu búnir að leita úrræða en án húsnæðis er engin grundvöllur til að halda safninu opnu. „Okkur hefur ekki tekist að finna hentugt húsnæði og þótt Reykjanesbær hafi stutt við okkur í gegnum árin þá finnum við fyrir litlum vilja hjá bæjaryfirvöldum til áframhaldandi samstarfs,“ segir Ingvar. „Það lítur því út fyrir að við séum komnir á endastöð sem verður eflaust til þess að þessi saga og þessar menningarminjar munu á endanum glatast. Okkur félögunum finnst það ömurleg tilhugsun en þannig er staðan.“
Ingvar bendir á að það verði opið á safninu á laugardag og sunnudag um Ljósanótt á milli klukkan 13 og 17. „Síðan lokum við í síðasta sinn,“ sagði hann að lokum.