Slökkviliðsmenn fræðast um hættur í metanólverksmiðjunni í Svartsengi
Slökkvilið Grindavíkur fékk góða heimsókn á dögunum þegar Gunnar Þórðarson, verksmiðjustjóri CRI (Carbon Recycling International) sem reisir metanólverksmiðju í Svartsengi, flutti fyrirlestur fyrir slökkviliðsmennina um hættur sem leynast í starfsemi verksmiðjunnar.
Að sögn Ásmundar Jónssonar slökkviliðsstjóra á vef Grindavíkurbæjar er metanól mjög eldfimt efni. Í verksmiðju CRI í Svartsengi eru því eldfimir vökvar og spilliefni og því nauðsynlegt fyrir slökkviiðsmenn að vera kunnugir staðháttum og standa rétt að málum skapist hætta.
Á fundinum fór Gunnar yfir efnafræði metanólsins og hvernig framleiðslan fer fram. Gott samstarf hefur verið á milli slökkviliðsins og CRI og var þessi fræðslufundur hluti af því.
Þegar verksmiðjan verður komin í gang eftir nokkrar vikur framleiðir hún um 20 tonn af metanóli á sólarhring.
Í metanólverskmiðjunni er nýttur koltvísýringur úr útblæstri virkjunar HS Orku og þannig framleitt eldsneyti á bíla. Unnið hefur verið að verkefninu undanfarin fimm ár en fyrsta skóflustunga að verksmiðjunni var tekin 17. október 2009.