Slökkviliðsmenn fordæma ógeðfelldar aðferðir
Landssamband slökkviliðs og sjúkraflutningamanna mótmælir harðlega þeim aðferðum sem starfsmannahald Varnarliðsins hefur beitt við uppsagnir slökkviliðsmanna á Keflavíkurflugvelli. Í ályktun sem samþykkt var á ársfundi sambandsins kemur fram að líkur séu á að við val á þeim einstaklingum sem sagt var upp störfum 1. mars síðastliðinn hafi verið notaðar ógeðfelldar aðferðir sem ekki ættu að þekkjast í nútímaþjóðfélagi.
LSS tekur fram að það sé með öllu ólíðandi að slökkviliðsmenn með mikla þekkingu, reynslu og eru löggiltir fagmenn sé sagt upp á meðan starfsmenn án löggildingar halda vinnunni.
LSS lýsir sig reiðubúið til að leggja sitt af mörkum til að starfsmenn slökkviliðsins geti orðið íslenskir slökkviliðsmenn.