Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Slökkviliðsmenn á Vellinum fá ekki umsamdar launahækkanir
Þriðjudagur 4. júlí 2006 kl. 11:07

Slökkviliðsmenn á Vellinum fá ekki umsamdar launahækkanir

Varnarliðið hefur neitað að greiða slökkviliðsmönnum á Keflavíkurflugvelli launahækkanir sem þeir eiga inni frá áramótum eftir því sem komið hefur fram í fréttum NFS. Samkvæmt kaupskrárnefnd, sem ákvarðar laun íslenskra starfsmanna varnarliðsins, eiga slökkviliðsmenn á Keflavíkurflugvelli að vera á sömu launum og landsamband Slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna. Sveitarfélögin sömdu fyrir skemmstu um launahækkanir sem gilda afturvirkt frá áramótum, en varnarliðið segir þær hækkanir fara framúr heimildum bandaríska varnarmálaráðuneytisins.

Vernharð Gunnarsson, formaður landsambandsins segir í viðtali við Víkurfréttir að lögfræðingar sambandsins séu þegar farnir að vinna í að leita réttar slökkviliðsmannanna.
„Kaupskrárnefnd hefur úrskurðað að varnarliðið eigi að greiða þessi laun. Menn eru á gömlu laununum ennþá þannig að þetta er mjög bagalegt fyrir þá starfsmenn sem þarna eru. Við lítum á þetta alvarlegum augum. Lögfræðingar okkar eru að hafa samband við utanríkisráðuneytið og við höfum þegar verið í sambandi við kaupskrárnefnd um þetta mál þannig að það fer strax að komast hreyfing á þetta mál. Það er engin spurning um að úrskurður kaupskrárnefndar gildir og ef varnarliðið neitar að greiða er það ríkið sem þarf að ábyrgjast. Okkar menn munu fá þessar greiðslur, en það er bagalegt hvað það mun taka langan tíma.“

Vernharð bætir því við að það sé slæmt að þurfa endurtekið að leita til dómstóla til að fá umsamdar kjarabætur, en skemmst er að minnast þess þegar Hæstiréttur úrskurðaði á síðasta ári að varnarliðinu hafi verið óheimilt að afnema ferðastyrk til slökkviliðsmanna.
„Þetta er allt á sömu bókina lært. Það er ekkert hægt að tjónka við þetta varnarlið því miður. Er þeim ekki bara sama um þetta því þeir eru að fara. Við erum ekki fyrsta stéttarfélagið sem lendir í þessu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024