SLÖKKVILIÐSMENN Á NÁMSKEIÐI Í REYKJANESBÆ
Námskeiðið Slökkviliðsmaður 1, var sett í Kjarna í Reykjanesbæ í síðustu viku. Hrólfur Jónsson, formaður skólanefndar Brunamálaskóla ríkisins og slökkviliðsstjóri Slökkviliðs Reykjavíkur, og Sigmundur Eyþórsson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Suðurnesja, settu námskeiðið.Námskeiðið er 114 kennslustundir og er samstarfsverkefni slökkviliðs Brunavarna Suðurnesja og Slökkviliðs Reykjavíkur í umboði Brunamálaskóla ríkisins. Námið er bæði bóklegt og verklegt og hefur Brunamálaskólinn lánað búnað til verklegrar þjálfunar. Fyrrihluti námskeiðsins var haldinn í Reykjanesbæ í umsjá Brunavarna Suðurnesja og sáu slökkviliðsmenn frá B.S. og Slökkviliði Keflavíkurflugvallar um kennsluna. Sextán slökkviliðsmenn voru á námskeiðinu, þar af sex frá B.S. og einn frá Slökkviliði Miðneshrepps.Samkvæmt reglugerð um menntun, réttindi og skyldur slökkviliðsmanna verða þeir að ljúka þremur áföngum í slökkvifræðum ásamt því að vinna í ákveðinn tíma í slökkviliði. Þá öðlast þeir löggildingu sem slökkviliðsmenn.Þetta er í annað sinn sem B.S. heldur slíkt námskeið en ákveðið var með tilliti til hagræðis fyrir slökkviliðin, að fela stærri slökkviliðum landsins þetta verkefni til reynslu. Fyrra námskeiðið var í október s.l. en þá útskrifuðust 15 slökkviliðsmenn af námskeiðinu. Þessi aðferð hefur skilað mjög góðum árangri og hefur verið mjög hvetjandi fyrir þá slökkviliðsmenn sem að kennslunni koma.Markaðs- og atvinnumálaskrifstofa Reykjanesbæjar stóð fyrir fjarfundi í tengslum við Iðntæknistofnun s.l. þriðjudag. Á fjarfundum sitja menn fyrir framan sjónvarpsskjá og geta bæði séð og heyrt í fundargestum víðs vegar um landið. Fundurinn á þriðjudaginn var sérstaklega ætlaður málmiðnaðarfyrirtækju og umfjöllunarefni voru m.a. málmsuða, gæðastaðlar og prófanir sem Iðntæknistofnun gerir fyrir atvinnulífið. Að fundi loknum gafst fundargestum á að taka þátt í umræðum og koma með spurningar. Ráðgert er að bjóða uppá slíka fjarfundi mánaðarlega til að byrja með. Næsti fundur verður haldinn í desember og kemur til með að fjalla um umhverfisstjórnun í smáfyrirtækjum og þá verða allir sem málið varðar, velkomnir.