Slökkviliðið í nýbrennt kaffi
Slökkvilið Brunavarna Suðurnesja var kallað að kaffiverksmiðju Kaffitárs í Innri Njarðvík nú í hádeginu en eldur hafði komið upp í strompi frá kaffibrennsluofni. Eldurinn var slökktur fljótt og örugglega og tjón varð ekki mikið.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem eldur kemur upp í strompum Kaffitárs en ástæðan er sú að þar safnast fyrir ryk við kaffibrennsluna, sem síðan brennur.
Það fylgir ekki fréttinni hvort slökkviliðsmenn hafi verið sendir heim með rjúkandi nýbrennt og malað kaffi en þeir geta örugglega tekið undir það að kaffibrunar eru einn af fáum brunum sem kalla má vel lyktandi.
Myndir frá útkallinum í Kaffitár í hádeginu. Víkurfréttamyndir: Hilmar Bragi