Slökkvilið Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli hlýtur alþjóðlega gæðavottun
Slökkviliðið á Keflavíkurflugvelli hlaut nýlega vottun nefndar um alþjóðlega vottun slökkviliða, Commission on Fire Accreditation International. Nefndin er sjálfstæð stofnun sem komið var á fót að frumkvæði heimssambands slökkviliðsstjóra og alþjóðasamtaka stjórnenda bæjar- og sveitarfélaga til að semja staðla til aukinna gæða og öryggis þeirrar þjónustu sem slökkviliðum um heim allan er ætlað að veita.Í nefndinni eiga sæti slökkviliðsstjórar, bruna- og öryggismálastjórar ásamt fulltrúum sveitarfélaga, tryggingarfélaga, iðnfyrirtækja og stéttarfélaga í mörgum stærstu borgum heims, og er vottun hennar víða orðin að skilyrði. Dæmt er um hæfni slökkviliða eftir ítarlegri matsgerð sem starfsmenn slökkviliðanna vinna sjálfir og fulltrúar nefndarinnar sannprófaá vettvangi.Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur gert vottun nefndarinnar að skilyrði fyrir öll slökkvilið bandaríkjahers og er slökkvilið Varnarliðsins annað slökkviliða hans sem lýkur vottunarferlinu og jafnframt fyrsta slökkviliðið utan Bandaríkjanna.Slökkvilið Varnarliðsins er skipað íslenskum starfsmönnum, samtals 128 manns. Nítíu þeirra annast brunavarnir allra mannvirkja á varnarsvæðunum, að meðtalinni flugstöð Leifs Eiríkssonar, svo og allra flugvéla sem leið eiga um flugvöllinn og 38 starfa í flugþjónustudeild.Keflavíkurflugvöllur er alþjóðaflugvöllur og eini varaflugvöllur tuga og hundruða flugvéla sem daglega leggja leið sína um þennan heimshluta. Jafnframt er hann varnarstöð og ellefti fjölmennasti þéttbýliskjarni landsins með 600 byggingum og öðrum mannvirkjum sem sum hver eru hin stærstu sinnar tegundar á landinu. Rík áhersla er lögð á öflugt eldvarnaeftirlit ogfyrirbyggjandi aðgerðir með víðtækri notkun fullkomins viðvörunar- og slökkvibúnaðar. Viðbúnaður vegna öryggis- og björgunarþjónustu við herflugvélar sem og aðrar flugvélar, farþega og áhafnir, er einnig viðamikill þáttur í starfseminni. Að auki sjá starfsmenn slökkviliðsins um hreinsun hættulegra efna, fermingu og affermingu herflutningaflugvéla, afgreiðslu og þjónustu við herflugvélar sem leið eiga um flugvöllinn, rekstur sérstaks öryggisbúnaðar er stöðvar orrustuþotur í lendingu að ógleymdum ísvörnum og snjóruðningi á athafnasvæði flugvéla á Keflavíkurflugvelli sem er um 1,6 milljón fermetrarað stærð.Haraldur Stefánsson slökkviliðsstjóri á Keflavíkurflugvelli segir að vottunin sé merkasti áfanginn í starfsemi slökkviliðsins hingað til og sú ómælda vinna sem liðsmenn hans hafi lagt á sig til að ná þessum áfanga tryggi að slökkviliðið á Keflavíkurflugvelli verði áfram í fremstu röð og geti í framtíðinni mætt síauknum kröfum um öryggi og gæði þjónustunnar.