Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Slökkvilið Keflavíkur 110 ára í dag
Mánudagur 13. mars 2023 kl. 09:37

Slökkvilið Keflavíkur 110 ára í dag

Slökkvilið Keflavíkur var stofnað á þessum degi, 13. mars 1913, þegar Hannes Hafstein undirritaði reglugerð fyrir eldvarna- og slökkvilið í kauptúninu Keflavík. Í Velvakanda Morgunblaðsins var tímamótanna minnst fyrir 40 árum í grein Skúla Magnússonar. Greinina má finna á timarit.is og má lesa hér að neðan:

Upphaf að sérstöku slökkviliði í Keflavík má rekja til bréfs sem Stjórnarráðið skrifaði hreppsnefnd Keflavíkurhrepps í okt. 1911. Þar var bent á, að samkvæmt lögum væru kauptún með 300 íbúa eða fleiri skyldug að hafa til taks slökkvilið ef til eldsvoða kæmi. Í bréfinu var ennfremur listi yfir áhöld sem fylgja skyldu slíku liði.

Í apríl 1912 ákvað hreppsnefnd kaup á dælu og ýmsum áhöldum, og fé til kaupanna var útvegað. Hins vegar mun eitthvað hafa dregist að brunadælan kæmi til landsins frá útlöndum, en ýmis smærri áhöld voru keypt.

Hinn 13. mars 1913 undirritaði Hannes Hafstein „Reglugerð fyrir eldvarna- og slökkvilið í kauptúninu Keflavík". Öðlaðist reglugerðin gildi 15. apríl s.á. (Sbr. Stjórnartíðindi 1913, B-deild, bls. 26-30.)
Reglugerðin er í 14 greinum. í 1. gr. segir að sérstök nefnd sjái um brunavarnir í kauptúninu. Í nefndinni áttu sæti: Ágúst Jónsson, hreppstjóri, form., Sigurður Þorkell Jónsson, slökkviliðsstjóri, og Arnbjörn ólafsson, kaupmaður.

Slökkviliðið skiptist í 3 aðalflokka:
I. Slökkvilið:
a) Slökkvivélalið. b. Vatnsburðarlið.
II. Húsrifs- og bjarglið.
III. Lögreglulið.

Engin sérstök lögregla var þá í Keflavík og því nauðsynlegt að hafa sérstakt lið til að halda uppi reglu á brunastöðum.

Lengst af var notast við véldælur, en stríðið sem hófst 1939 hefti öll áform um endurnýjun tækjabúnaðar hjá slökkviliðinu. Liðið var þó endurskipulagt á þessum árum. En í raun og veru var það mjög vanbúið við að takast á við mikinn eldsvoða, og fylgdi engan veginn þeirri þróun byggðar sem var í Keflavík á þessum árum.

Um 1933 var keypt véldæla sem notuð var þangað til slökkviliðsbíll kom 1948. Sú dæla var notuð við brunann í samkomuhúsinu Skildi 1935. En í stríðsbyrjun fór hún að ganga úr sér og oft gekk erfiðlega að setja hana í gang þegar á þurfti að halda.

Árið 1943 samdi þáverandi lögreglustjóri í Keflavík, Alfreð Gíslason, við ameríska herinn, um að slökkvilið hans veitti aðstoð ef eldur kæmi upp í þorpinu. Þetta var gert að áeggjan hreppsnefndar, þar sem tækjabúnaður var svo lélegur. (Faxi, des. 1943.) Hefur slökkviliðið á Keflavíkurflugvelli jafnan veitt mikla aðstoð og mjög oft forðað frá stórbrunum.

Strax eftir að stríðinu lauk 1945 var reynt að fá notaðan slökkvibíl frá setuliðinu. En slökkvibíll kom ekki fyrr en um sumarið 1948. Þetta var nýlegur bíll af Ford-gerð. Sá bíll var lengi í notkun, en hefur nú fengið hvíld frá störfum. (Faxi, nóv. 1945.)

Kristinn Reyr skrifaði stundum gamanpistla í Faxa. Hann minnist komu fyrsta slökkviliðsbílsins til Keflavíkur á þessa leið:

„Brunabíll vor hélt inntöku sína í plássið á dögunum. Lét dæluna ganga við íshústjörn, hver tæmdist á svipstundu, en Seltjörn tók að flæða yfir bakka sína, og ógna Grindvíkingum. Þá þrýsti slökkviliðsstjóri vor á frammíhnapp bílsins og íshústjörnin fékk vatn sitt aftur. Svo var mikill sogdælunnar kraftur.
Mun nú í ráði að selja gömlu aftaníkerrurnar þangað sem aldrei kviknar í.“ (Faxi, júní 1948.)

Strax í júní 1913 fékk brunamálanefnd lóð við Hafnargötu þar sem reist var hús yfir slökkviáhöldin. Það hús var seinna hækkað og stækkað. Þar var lengi rafstöð Keflavíkur. Einnig voru þar skrifstofur Keflavíkurbæjar og seinast lögreglustöð. En eins og margar góðar stofnanir lenti slökkviliðið á hrakhóla með tól sín þegar að kreppti við Hafnargötuna.

Frá Hafnargötunni lá leið liðsins inn í Olíusamlag við höfnina, þá í Áhaldahús Keflavíkurbæjar, þá bifreiðaverkstæði sérleyfisbifreiðanna og seinast í þvottahús sérleyfisbifreiðanna.

Sumarið 1967 flutti liðið loks inn í eigið húsnæði, nýreista slökkvistöð við Hringbraut.

Sigurður Þorkell Jónsson verslunarstjóri hjá Duusverslun varð fyrstur slökkviliðsstjóri í Keflavík. Það var 1913—16. Varamaður hans á sama tíma var Ólafur V. Ófeigsson kaupmaður í Edinborg. Aðrir sem gegnt hafa starfinu voru t.d.: Eyjólfur Ásberg 1923-26 og aftur 1929-32. Margeir Jónsson útgerðarmaður hefur trúlega sinnt starfinu lengst. Hann var orðinn slökkviliðsstjóri 1943 og gegndi því í nærfellt 20 ár.

Á árunum 1970—1980 óx mjög samstarf sveitarfélaga á Suðurnesjum. Þá mynduðu nokkur sveitarfélög með sér Brunavarnir Suðurnesja, en gamla Slökkvilið Keflavíkur var þá lagt niður. Nú stendur yfir stækkun á slökkvistöðinni í Keflavík.

Að sjálfsögðu hefur orðið mikil breyting á tækjakosti slökkviliðsins. Þrátt fyrir þrengsli varðveitir slökkviliðið enn gamlar dælur, brunalúðra og stúta. Jafnvel gamla bíla. Eðlilegast væri að slík tól yrðu geymd í framtíðinni í nýju safnahúsi þegar það hefur litið dagsins Ijós, en þangað til eru þau best geymd í húsakynnum slökkviliðsins.

Að lokum skal aðeins blaðað í brunaannálum Keflavíkur, en rúmsins vegna er ekki hægt að gera því efni nein veruleg skil.

22. jan. 1908 kom upp eldur í tvílyftu timburhúsi Helga Eiríkssonar bakara. Það stóð á horni Hafnargötu og Klapparstígs. Kviknaði í út frá olíulampa í eldhúsi á efri hæð. Þar bjó Helgi, en á neðri hæð var bakarí og verslun. Húsið eyðilagðist, en nokkru var bjargað af vörum og innanstokksmunum. (Dómabók Gullbringus. 1908. Þjóðskj.s.)

14. apríl 1912 kviknaði í timburhúsi Stefáns Bergmanns. Það stóð á horni Aðalgötu og Hafnargötu. Stefán bjó á efri hæð, en Vilhjálmur Hákonarson rak verslun niðri. Bjargaðist nokkuð af vörum, en að öðru leyti brann innbú með húsinu. (Dómabók Gull. 1912, bls. 46-53. Þjóðskj.s.)

30. des. 1935 kviknaði í samkomuhúsinu Skildi er jólatrés- skemmtun barna stóð yfir. Eldurinn kviknaði út frá jólatré sem bar logandi kerti. Um 200 manns voru í húsinu. 6 fórust í brunanum, en 3 létust seinna af afleiðingum brunasára. Húsið var úr timbri, byggt 1905. (Dagblöð.)

2. apríl 1948 varð stórtjón í hraðfrystihúsinu Frosta hf., en það stendur skammt frá Sundhöll Keflavíkur. Afspyrnurok var og mikið frost og gerði það erfitt við slökkvistarf. Hluti hússins eyðilagðist. (Faxi.)

10. okt. 1948 kviknaði í kvikmyndafilmu er sýning stóð yfir í Verkalýðshúsinu við Túngötu. Þar er nú Félagsbíó. Sýningarmaðurinn slapp naumlega út úr sýningarklefanum. Er bíógestir urðu eldsins varir ruddust þeir út. Engin slys urðu. En skemmdir urðu talsverðar. (Faxi.)

15. nóv. 1948 kom upp mikill eldur í birgðaskemmum við flugafgreiðslu á Keflavíkurflugvelli. Engu varð bjargað og brunnu skemmurnar til grunna. Slökkvilið Keflavíkur aðstoðaði þar lið flugvallarins. (Faxi.)
Aðfaranótt 13. apríl 1953 kom upp mikill eldur í Hraðfrystistöð Keflavíkur („Litlu-Milljón", eins og húsið er jafnan nefnt í daglegu tali). Skemmdir urðu miklar. (Dagblöð.)

18. febr. 1957 eyðilagðist hluti af Hraðfrystihúsi Keflavíkur hf. („Stóru-Milljón") af eldi. Á neðri hæð var saltfiskverkun og þar eyðilögðust 400 1. af salti. Lítið var þar af fiski. Á efri hæð var verbúð. Þar bjuggu 50—60 manns, sem voru á vertíð. Missti það fólk allar eigur sínar. (Dagblöð.)

í okt. 1957 kviknaði aftur í Hraðfrystistöð Keflavíkur. Eyðilagðist mikill hluti hússins og tjón var lauslega metið á 2—3 milljónir. Frystiklefum forðað. (Dagblöð.)

14. maí 1965 varð stórbruni í Hraðfrystihúsi Keflavíkur. Mikil sprenging varð í vélarhúsi og breiddist eldur samstundis út. Fólk var nýfarið heim að vinnudegi loknum. Vélarhús og flökunarsalur eyðilagðist. Á efri hæð eyðilagðist mötuneyti og umbúðageymsla. Ennfremur veiðarfæri. Frystiklefum og fiskmóttöku forðað. (Dagblöð.)

12. nóv. 1967 kom upp eldur í Sundhöll Keflavíkur. Voru upptök hans í loftrásakerfi hússins og þaðan breiddist hann út. Þak hússins hrundi niður í laugina. Um tíma var tjón talið svo mikið að til tals kom að byggja nýja sundlaug. (Dagblöð.)

Aðfaranótt 1. nóv. 1968 stórskemmdist Félagsbíó f miklum eldi. Eyðilagðist sýningarsalur og leiksvið gjörsamlega. Forsalur hússins og sýningarklefi skemmdust lítið. Milljónatjón. (Dagblöð).

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024