Slökkt á ofninum í nótt vegna vandamála með rafskaut
-Búast má við lykt frá verksmiðjunni meðan á uppkeyrslunni stendur
Kvartað hefur verið undan lykt frá verksmiðju United Silicon undanfarna daga. Kristleifur Andrésson, upplýsingafulltrúi United Silicon, segir í samtali við Víkurfréttir að ástæða lyktarinnar sé sú að ofninn hafi verið keyrður á skertu álagi vegna vandamála með eitt rafskautið í ofninum.
Í gærkvöldi hafi því verið slökkt á ofninum þannig að hægt væri að stytta rafskautið og koma rekstri ofnsins í jafnvægi. Unnið var að því alla síðustu nótt og lauk verkinu í morgun. Ofninn var svo settur af stað aftur klukkan 11:40 í morgun og verður keyrður upp samkvæmt venjubundnu uppkeyrsluplani. Búast má við lykt frá verksmiðjunni meðan á uppkeyrslunni stendur og vindátt er til bæjar.
United Silicon biðst velvirðingar á þeim óþægindum sem fólk verður fyrir vegna þessa. „Af þessu tilefni viljum við þó minna á niðurstöður mælinga á losun frá verksmiðjunni. Norska loftgæðastofnunin, NILU, hefur annast mælingarnar og samkvæmt þeim berast ekki hættuleg efni í skaðandi mæli frá verksmiðjunni. Þetta á við bæði íbúa í Reykjanesbæ og starfsmenn verksmiðjunnar,“ segir Kristleifur.