Sló til lögregluþjóns undir áhrifum fíkniefna
Lögreglan á Suðurnesjum hafði afskipti af þremur ökumönnum um helgina, sem allir reyndust aka undir áhrifum fíkniefna. Karlmaður á þrítugsaldri viðurkenndi neyslu á kannabis og í bifreið hans fundust kannabisefni.
Annar ökumaður, tæplega tvítugur, sinnti ekki stöðvunarmerkjum lögreglu og þurfti því að aka lögreglubílnum fram fyrir bíl hans til að stöðva hann. Maðurinn stökk þá út og tók á rás. Hann sló til lögreglumanns sem hljóp hann uppi. Sýnataka á lögreglustöð staðfesti að hann hafði neytt kannabisefna. Þetta var í annað sinn á skömmum tíma sem lögregla hafði afskipti af manninum vegna fíkniefnaaksturs.
Þá var rúmlega tvítugur ökumaður handtekinn. Undir mælaborði bifreiðarinnar sem hann ók fundust kannabisefni. Að auki voru þrjú eggvopn í bifreiðinni.
Loks hafði lögregla afskipti af ökumanni, sem grunaður var um ölvun við akstur.