Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Miðvikudagur 2. janúar 2002 kl. 23:47

Slit á meirihlutasamstarfi í Reykjanesbæ rædd í kvöld

Stjórn fulltrúaráðs framsóknarfélaganna í Reykjanesbæ boðaði bæjarfulltrúa framsóknarflokksins til fundar í kvöld þar sem hugsanleg slit á meirihlutasamstarfi framsóknarflokks og sjálfstæðisflokks voru til umræðu.Efni fundarins í kvöld fór mjög leynt en Víkurfréttum bárust upplýsingar í kvöld um mikinn hita á meðal framsóknarmanna í Reykjanesbæ á fundi fyrir áramót þar sem útspil sjálfstæðismanna að kynna Árna Sigfússon sem nýjan bæjarstjóra í Reykjanesbæ hafa farið mjög fyrir brjóstið á fjölmörgum aðilum innan framsóknarflokksins í bæjarfélaginu. Finnst framsóknarmönnum kynning sjálfstæðismanna vera í þá átt að öruggt sé að Árni verði næsti bæjarstjóri og Árni hafi komið fram í fjölmiðlum og sagst lítast vel á nýja starfið.
Margir framsóknarmenn hafa sett sig í samband við forystumenn flokksins í Reykjanesbæ og lýst yfir reiði sinni með framgöngu sjálfstæðismanna í bæjarfélaginu. Þykir mönnum sjálfstæðismenn hafa sýnt hroka með því að kynna Árna Sigfússon sem næsta bæjarstjóra Reykjanesbæjar.
Víkurfréttir höfðu samband við Skúla Þ. Skúlason, oddamann framsóknarmanna í bæjarstjórn Reykjanesbæjar í kvöld vegna málsins. Honum var mjög brugðið þegar blaðamaður bar tíðindin undir hann en staðfesti óróleika hjá sínu fólki.
Skúli sagði það ekki hafa verið niðurstöðu fundar fulltrúaráðsins í kvöld að slíta meirihlutasamstarfinu og hann hafi ekki mælt með því. „Við höfum verið leiðandi í mörgum verkefnum í bæjarfélaginu og viljum klára þau með reisn“.
Umræðan um meirihlutaslit heldur sjálfsagt áfram á meðal framsóknarmanna en viðhorf margra framsóknarmanna eru í þá átt að slíta samstarfinu.
„Samstarfsflokkurinn stefnir á hreinan meirihluta í kosningunum í vor. Ég tel það ofmat hjá þeim“, sagði Skúli og bætir við að nokkrir farsælir bæjarfulltrúar sjálfstæðismanna séu að hætta og nýir að taka við og Árni Sigfússon sé óskrifað blað í Reykjanesbæ.
Skúli sagðist í samtali við Víkurfréttir að ef framsóknarmenn kæmu að nýjum meirihluta í Reykjanesbæ eftir kosningar vilji framsóknarmenn hafa áhrif á það hver verði næsti bæjarstjóri Reykjanesbæjar.
„Ég er talsmaður þess að klára þetta kjörtímabil með samstarfsflokknum,“ sagði Skúli en bætti jafnframt við að hann komi ekki einn að ákvörðun um slit eða áframhaldandi samstarf.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024