Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Slippurinn frá Akureyri kemur sér fyrir í Grindavík
Hönnuðurinn Vilhelm Þórarinsson og Óli Björn Ólafsson Verkefnastjóri.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 2. desember 2022 kl. 13:43

Slippurinn frá Akureyri kemur sér fyrir í Grindavík

Martak er grindvískt fyrirtæki, stofnað árið 1995 af Ómari Ásgeirssyni en tilgangur fyrirtækisins var hönnun og smíði á vélum fyrir rækjuvinnslu.  

Á dögunum var Martak selt - en þó ekki, Slippurinn, rótgróið akureyrskt fyrirtæki keypti húsnæði, vélar og hugvit Martaks en Martak lifir áfram góðu lífi en flytur bækistöðvar sínar til Hafnarfjarðar og áfram verður Martak Canada rekið. En hver er ástæða kaupanna og hvað hefur Slippurinn í hyggju? Óli Björn Ólafsson, fyrrum starfsmaður Martaks og núverandi starfsmaður Slippsins svarar því.

„Slippurinn sem áður hét Slippstöðin er rótgróið fyrirtæki frá Akureyri og er leiðandi í þjónustu við útgerðir. Við önnumst hönnun og sinnum breytingum og endurbótum á skipum auk alls almenns viðhalds þeirra. Einnig bjóðum við upp á heildarlausnir í hönnun og framleiðslu á vinnslubúnaði í fiskiskip. Slippurinn var mest að vinna með skip, en sjaldnar í landvinnslunni en Martak hefur gert góða hluti í þeim hluta, m.a. vegna Vilhelms Þórarinssonar sem hefur unnið hjá fyrirtækinu nánast frá stofnun. Eftir að rækjuvinnsla dróst saman færði Martak sig meira yfir í  alls kyns hönnun fyrir bolfiskvinnslu og þar sem mikið er framundan í fiskeldi þá sáu eigendur Slippsins sér leik á borði og keyptu allt nema það sem viðkemur rækjuhlutanum. Martak mun því áfram lifa góðu lífi en flyst úr Grindavík til Hafnarfjarðar og Slippurinn opnar í raun útibú í Grindavík í staðinn.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Árið 2005 kom Samherji inn sem stór hluthafi í Slippinn en undanfarið hefur Samherji fetað sig áfram í laxeldi, það ásamt staðsetningunni og fjölbreyttari vörulínu er grunnurinn fyrir þessum kaupum. „Fyrir Slippinn er mikilvægt að vera með starfsstöð á Reykjanesi og geta þannig veitt viðskiptavinum á höfuðborgarsvæðinu og suðvesturhorni landsins aukna þjónustu. Í Grindavík er sjávarútvegurinn öflug atvinnugrein auk þess sem staðsetningin er ákjósanleg til að þjónusta fiskeldi sem er að byggjast upp á Reykjanesi sem og á Suðurlandi,“ sagði Óli að lokum.