Slegist um raðhús og nýjar íbúðir
- Fasteignasali segir markaðinn á Suðurnesjum að komast í jafnvægi
Fermetraverð á Suðurnesjum hefur hækkað um 4,5 prósent frá árinu 2010, samkvæmt nýlegri greiningu Íslandsbanka. Hækkunin á Suðurnesjum er sú minnsta á landinu. Mesta hækkun á fasteignaverði á tímabilinu var á höfuðborgarsvæðinu, eða um 40,2 prósent og á Vestfjörðum þar sem verðið hefur hækkað um 36,5 prósent.
Að sögn Guðlaugs H. Guðlaugssonar, eiganda fasteignasölunnar Stuðlabergs í Reykjanesbæ er ein skýringin á þessari litlu hækkun sú að fjármálastofnanir hafi átt óhemju mikið af eignum á Suðurnesjum. „Þá stýra þær verðgildi fasteigna. Verðið hélst lágt þegar bankarnir og Íbúðalánasjóður áttu mikið af eignum. Á tímabili var framboðið miklu meira en eftirspurnin en í dag búið að selja megnið af því sem bankarnir og Íbúðalánasjóður áttu. Fasteignamarkaðurinn á Suðurnesjum er því að komast í eðlilegt jafnvægi aftur,“ segir hann.
Guðlaugur segir að fasteignaverð á Suðurnesjum hafi farið hækkandi að undanförnu, með aukinni eftirspurn. „Nú er slegist um raðhús og nýlegar íbúðir. Það vantar ákveðnar tegundir af eignum sem hækkar verðið og þá sömuleiðis aukast líkurnar á því að það verktakar sjái hag sinn í því að byggja húsnæði.“