Slasaðist í skoðunarferð um Hrafn Sveinbjarnarson
Lúga niður í lest féll á nokkra fingur skipstjóra.
„Ég var að skoða Hrafn Sveinbjarnarson sem var við bryggju við Suðurgarð síðastliðinn mánudag. Var á leið niður í lest með útgerðarstjóranum. Ég gekk á eftir honum og þá pompaði lúgan á puttana á mér,“ segir Rafn Franklín Arnarson, skipstjóri hjá útgerðarfyrirtækinu Stakkavík í Grindavík.
Rafn hlaut opið beinbrot á tveimur fingrum og slitnaði sin á einum fingri vinstri handar, auk þess sem sin slitnaði á löngu töng hægri handar. Rafn var fluttur á sjúkrahús þar sem gert var að sárum hans og sendur í fjögurra tíma aðgerð þar sem reynt var að bjarga fingrunum. Rafn var svo kominn heim seinni part mánudags og Víkurfréttir litu við heima hjá honum í dag. „Þetta lítur ekkert of vel út en það verður skoðað almennilega á mánudag hvernig málin standa,“ segir Rafn og ber sig vel miðað við aðstæður.
Rúmar tvær vikur eru síðan Hrafn Sveinbjarnarson kom nýr og endurbættur til hafnar í Grindavík. Rafn, sem þekkir öryggismál skipa vel starfs síns vegna, segir að lúgan hefði undir eðlilegum kringumstæðum ekki átt að skella svona niður. „Það hefði verið verra ef þetta hefði gerst úti á sjó. Ég var búinn að heyra af því að það þyrfti að laga þetta en svo var bara ekki búið að því. Sem betur fer var gengið strax í að laga þetta. Þetta er 50-70 kg lúga,“ segir Rafn, sem ætlar að gera sitt besta til að halda kyrru fyrir og fara vel með sig næstu sex vikurnar. Hann mun þó fara með þegar fulltrúar Stakkavíkur sækja nýtt skip til Kópavogs á sunndagskvöld, en það kemur frá Akureyri.
VF/Olga Björt