Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fimmtudagur 21. október 1999 kl. 23:58

SLAKUR NÁMSÁRANGUR GRUNNSKÓLANEMA Á SUÐURNESJUM ÁHYGGJUEFNI Á AÐALFUNDI SAMBANDS SVEITARFÉLAGA

Skólamál voru mikið rædd á aðalfundi SSS um síðustu helgi. Amalía Björnsdóttir, lektor við Kennaraháskóla Íslands, fór yfir niðurstöður samræmdra prófa á Suðurnesjum í samanburði við aðra landshluta, en árangur nemenda á Suðurnesjum er ekki til að hrópa húrra fyrir. Menntun foreldra skiptir máli Amalía sagði að námsárangur barna væri yfirleitt slakari í sjávarplássum en annars staðar, en það væri samt ekkert náttúrulögmál. Hún benti m.a. á að frammistaða nemenda væri tengd menntun foreldra, en að því leyti væru Reykjavík og Suðurnes ólík svæði. Áhrif frá umhverfinu gætu einnig skýrt þennan mun. Atvinnuþátttaka barna í sjávarplássum hefst fyrr en annars staðar og börn sjá snemma að þau geta haft góðar tekjur án þess að fara í lengra nám. Verri en Vestfirðingar Niðurstöður samræmdra prófa í 4. bekk á Suðurnesjum, eru sambærilegar við aðra landshluta, en í 7. bekk dragast Suðurnesin verulega aftur úr. Íslenskan kemur hræðilega illa út í 7. bekk, en þar eru Suðurnesin í neðsta sæti yfir allt landið. Suðurnesin eru svo í næst neðsta sæti í stærðfræðinni. Tungumálin koma betur út Könnun á niðurstöðum samræmdra prófa í 10. bekk á tímabilinu 1993-1999, sýnir að Suðurnesin eru enn í baráttu við Vestfirði um botnsætið, því þar eru Vestfirðir á botninum en Suðurnesin fylgja fast á hæla þeirra. Enn sem fyrr koma íslenskan og stærðfræðin verst út. Enskan og danskan koma reyndar ágætlega út, og Amalía tók það sérstaklega fram að góður dönskukennari skipti öllu máli fyrir góðan árangur í dönskunámi. Jóhann Geirdal (J), bæjarfulltrúi benti á að enskan kæmi e.t.v. svona vel út vegna nálægðar við varnarsvæðið, sem er stór þáttur í atvinnulífi Suðurnesjamanna. Vantar toppana Amalía sagði það vera sérstakt áhyggjuefni hversu hátt hlutfall nemenda á Suðurnesjum væru í lægstu einkunnaflokkum. Á landsvísu fá um 10% nemenda einkunn á bilinu 1-2 en á Suðurnesjum er þetta hlutfall um 20%. Slíkur árangur lokar jafnvel ýmsum möguleikum, því þegar undirstaðan er slök þá gengur fólki oft illa í framhaldsnámi, hvort sem um er að ræða bóknám eða iðnnám. Framleiðum slaka drengi Árangur drengja er slakari en stúlkna í öllum greinum, miðað við niðurstöður samræmdra prófa í 10.bekk. Piltarnir standa sig þó ágætlega í stærðfræði, miðað við stúlkurnar, en þær halda samt forskotinu. Einn fundarmaður nefndi það að ef stúlkur væru slakari en drengir þá væri löngu búið að grípa til einhverra aðgerða til að jafna stöðu kynjanna. Mikið áhyggjuefni Hjálmari Árnasyni, núverandi alþingismanni og fyrrverandi skólameistara F.S., var mikið niðri fyrir þegar Amalía hafði lokið við að kynna niðurstöður sínar. Hann sagði að sveitarfélög á Suðurnesjum hefðu fengið falleinkunn í skólamálumog skoraði á sveitarstjórnir á Suðurnesjum að hefja stórsókn í menntun. „Annars töpum við fyrir öðrum sveitarfélögum”, sagði Hjálmar Árnason að endingu.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024