Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Slagsmálastimpill fer fyrir brjóstið á Keflvíkingum
Mánudagur 22. júlí 2013 kl. 13:52

Slagsmálastimpill fer fyrir brjóstið á Keflvíkingum

Grein Vals Gunnarssonar í DV vekur hörð viðbrögð

Grein Vals Gunnarssonar í DV sem birtist fyrir helgi og á dv.is um helgina hefur vakið hörð viðbrögð Keflvíkinga á samskiptavefnum Facebook. Fyrirsögn greinarinnar á dv.is er „Að vera laminn í Keflavík er eitthvað sem allir verða að reyna einu sinni á lífsleiðinni.“ Greinarhöfundur gerði sér dagsferð til Reykjanesbæjar, eða til Keflavíkur eins og hann sjálfur greinir frá. Þar var fengið sér Villaborgara og farið á Paddys en hann lýsir Paddys sem „helstu menningarmiðstöð bæjarins“ og segir það besta staðinn til þess að fara á vilji maður sleppa óbarinn úr bænum.

Ekki virðist greinarhöfundur hafa lent í slagsmálum þetta kvöldið en samt sem áður virðist honum hugleikið að allir verði að prófa það að vera lamdir í Keflavík. Greinarhöfundur gefur hins vegar engar skýringar á því hvers vegna hann telur svo vera.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Allnokkrir Keflvíkingar deildu greininni á Facebook þar sem umræða spratt upp á meðal bæjarbúa hversu ótrúlega þreytt þessi staðalímynd sé, að fólk geti ekki farið að skemmta sér í Keflavík án þess að verða fyrir aðkasti.

Sumir benda á að þegar þeir hafi hafið háskólagöngu sína í Reykjavík, hafi þeim mætt fordómar frá samnemendum sem hafa einmitt trúað þessari staðalímynd, að Keflavík sé staður þar sem ekki sé hægt að vera öruggur úti á næturlífinu. Margir benda einnig á að þrátt fyrir að hafa búið í Keflavík alla tíð hafi þeir aldrei lent í slagsmálum og að næturlífið í Reykjavík sé ekkert friðsælla en það í Keflavík.

Einnig er rætt um að umfjöllun fjölmiðla um svæðið sé oft á tíðum órætið og ósanngjarnt og að það ýti undir fordóma. Lítið virðist vera fjallað um það jákvæða sem á sér stað á svæðinu.

Lesa má hluta úr greininni hér.