Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fimmtudagur 6. september 2001 kl. 09:40

Slæmt ástand Suðurstrandarvegar

Umhverfismat vegna Suðurstrandarvegar var samþykkt af skipulagsstofnun fyrir stuttu og er nú unnið að frumdrögum fyrir veginn en er matsskýrslan væntanleg í október. Suðurstrandarvegur er 58 km langur vegur á milli Grindavíkur og Þorlákshafnar og kemur í stað vegar 427 Ísólfsskálavegar og hluta Krýsuvíkurvegar. Gert er ráð fyrir að vegurinn verði tvíbreiður með bundnu slitlagi. Vegurinn breytir miklu fyrir útgerð á svæðinu en fiskflutningar milli Vestamannaeyja, Þorlákshafnar og Grindavíkur eru mjög tíðir. Á leiðinni er einnig mikið um fallega ferðamannastaði sem auðveldara verður að nálgast.
„Það verður í fyrsta lagi hægt að hefjast handa við framkvæmdir á næsta ári“, segir Valtýr Þórisson hjá Vegagerðinni en vegna seinkunar á afgreiðslu umhverfismatsins verður ekki hægt að hefja framkvæmdir í haust eins og til stóð. Hægt er að nálgast umhverfismatið á vefsíðu vegagerðarinnar, www.vegagerdin.is.
Miklir fiskflutningar fara fram á milli Suðurnesja og Suðurlands og mun vegurinn gegna mikilvægu hlutverki í þeim flutningum. Talið er að um 15.000 tonn séu flutt á milli Suðurnesja og Suðurlands á ári að sögn Einars Njálssonar, bæjarstjóra í Grindavík. Samkvæmt mati sem Byggðastofnun gerði fyrir þrem árum er gert ráð fyrir að flutningarnir þrefaldist með tilkomu vegarins. „Við teljum að vegurinn muni hafa töluverð áhrif á útgerð og fiskvinnslu á svæðinu“, segir Einar. „Það myndast líka skemmtileg hringleið fyrir ferðaþjónustuna sem getur byrjað í Keflavík, Reykjavík, Þorlákshöfn eða á Grindavíkursvæðinu.“ Núverandi vegur er í frekar slæmu ásigkomulagi og að mati Einars er löngu kominn tími á nýjan veg. „Vegurinn gegnir líka mikilvægu hlutverki sem undankomuleið með tilliti til eldvirkni bæði á Suðurnesi og Suðurlandi. Sjóslys eru því miður tíð og alvarleg sjóslys hafa orðið með fram ströndinni. Ef vegurinn liggur með fram sjónum eins og fyrirhugað er auðveldar hann mjög sjóbjörgun á svæðinu.“ Eins og kunnugt er verða Suðurnes og Suðurland eitt kjördæmi og því nauðsynlegt að samgöngur þar á milli séu góðar. „Eitt af því sem lagt var til grundvallar þegar kjördæmin voru sameinuð var að byggja upp samgöngur innan kjördæmisins“, segir Einar. Suðurstrandavegur gerir greiða leið að merkilegum ferðamannastöðum á leiðinni sem hingað til hafa verið afskiptir: Krýsuvík, Krýsuvíkurberg, Herdísarvík, Strandakirkja og margir fallegir staðir verða aðgengilegri almennum ferðamönnum.
Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum hefur samþykkt að hvetja vegamálastjóra til þess að bæta veginn. Dæmi eru um að ferðamenn hafi snúið við vegna lélegs ástand vegarins. Vegurinn er í verstu ásigkomulagi þegar nær dregur Grindavík.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024