Slæmt ástand á stálþili í Sandgerði
– bryggjan verður ónothæf innan 2ja til 3ja ára
Ástand á stálþili suðurbryggjunnar í Sandgerði er slæmt, tæring víða mikil og stór göt. Þetta er niðurstaða skoðunar Sigurðar Stefánssonar kafara á þilinu. Hann kynnti niðurstöðu sína fyrir hafnarráði Sandgerðishafnar á dögunum.
Sigurður taldi að mögulegt væri að fara í viðgerðir sem myndu duga í um 10 ár og ef ekkert yrði að gert myndi bryggjan verða ónothæf innan 2ja til 3ja ára.
Hafnarráð Sandgerðis hefur ákveðið að fá Sigurð Áss Grétarsson sérfræðing frá Vegagerðinni á næsta fund ásamt Sigurði Stefánssyni til þess að fara betur yfir leiðir til lagfæringar á bryggjunni.