Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Slæm umgengni í Reykjanesfólkvangi
Þriðjudagur 18. september 2012 kl. 09:07

Slæm umgengni í Reykjanesfólkvangi

Reykjanesfólkvangur var friðlýstur árið 1975 en þar er mikið um jarðhitasvæði og fallegar jarðmyndanir s.s. hraundyngjur, gossprungur, móbergsfjöll og stapa. Tilgangurinn með friðlýsingu fólkvanga er m.a. að tryggja almenningi aðgang að svæðum til þess að njóta útivistar.

Umgengni á nokkrum svæðum innan Reykjanesfólkvangs hefur verið mjög slæm í gegnum árin. Á þeim svæðum þar sem umgengnin er verst er að finna mikið rusl og svo virðist sem einhverjir noti svæðin sem ruslahauga fyrir úrgangsmold, steypu, glerbrot, raftæki, timburúrgang og bílaparta en einnig hafa einhverjir aðilar nýtt svæði sem skotæfingasvæði en þar er að finna notuð skothylki ásamt ósprungnum skotum í þúsundatali, ásamt leifum af leirdiskum og dúfum.

Umhverfisstofnun hefur staðið fyrir því í sumar, líkt og nokkur undanfarin sumur, að hreinsa til innan fólkvangsins. Í sumar fóru starfsmenn Umhverfisstofnunar ásamt sjálfboðaliðum stofnunarinnar í Reykjanesfólkvang og tóku til hendinni ásamt landverði fólkvangsins sem starfar á vegum stjórnar Reykjanesfólkvangs á svæðinu. Segja má að aðkoman í sumar hafi verið með eindæmum slæm en mjög mikið rusl var innan fólkvangsins. Alls lögðu 30 sjálfboðaliðar stofnunarinnar til vinnu við verkið, en betur má ef duga skal því að enn er mikið af skothylkjum og glerbrotum víða t.d. í mosa og á berjalyngi.

Umhverfisstofnun og stjórn Reykjanesfólkvangs vill brýna fyrir fólki að henda ekki rusli og öðrum úrgangi á víðavangi heldur skila honum inn til þess gerðra móttökustöðva. Umgengni eins og sú er viðgengst innan Reykjanesfólkvangs er mikil óvirðing við þá einstöku náttúru sem þar er að finna og gengur þvert á tilgang friðlýsingarinnar sem er sá að vernda landslag og tryggja svæði til útivistar fyrir núverandi og komandi kynslóðir.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024