Sláandi myndir af dauðum laxi
Dagur vatnsins er haldinn í dag með ráðstefnu í Svartsengi. Þar eru flutt ýmis erindi tengd vatni. Í sunnudagsblaði Morgunblaðsins segir Bergur Sigurðsson umhverfisefnafræðingur hjá Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja frá því hvað hafi komið honum mest á óvart í dagskrá ráðstefnunnar: "Mikið hefur verið deilt um laxeldi í sjókvíum og sýnist þar sitt hverjum. Ég tel víst að margir á ráðstefnunni verði hissa þegar birtar verða neðansjávarmyndir sem sýna dæmi um slælega umgengni ónefndra aðila í sjókvíaeldi. Ég vona að umræddar myndir séu einsdæmi en óttast þó að svo sé ekki."Þá segir Bergur: "Ég hef skoðað flest gögn sem fylgja munu erindunum og það sem kom mér mest á óvart var að heitsinkhúðaðar vatnslagnir, sem eru mikið notaðar fyrir neysluvatn, henta ekki í þá notkun. Við ákveðnar aðstæður getur okkar steinefnasnauða vatn tært lagnirnar það mikið að vatnið í þeim verður óneysluhæft. Ekki er nóg með að mikið sé af þessum lögnum í gömlum húsum heldur er enn verið að nota heitsinkhúðaðar lagnir í nýbyggingum. Þetta þarf að breytast," segir Bergur jafnframt um efni ráðstefnunnar. Frekari fréttir af ráðstefnunni síðar í dag.
Meðfylgjandi mynd er af myndbandinu sem sýnt verður á ráðstefnunni í Svartsengi nú á tólfta tímanum.
Meðfylgjandi mynd er af myndbandinu sem sýnt verður á ráðstefnunni í Svartsengi nú á tólfta tímanum.