Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Skýrsla um sameiningu Hafnarfjarðar og Vatnsleysustrandarhrepps: Margt mælir með sameiningu
Fimmtudagur 22. september 2005 kl. 11:34

Skýrsla um sameiningu Hafnarfjarðar og Vatnsleysustrandarhrepps: Margt mælir með sameiningu

Sameining Hafnarfjarðar og Vatnsleysustrandarhrepps hefði í för með sér mikið hagræði og myndu kostirnir vega upp galla að flestu leyti. Þetta má lesa út úr skýrslu sem ráðgjafarfyritækið ParX hefur unnið fyrir Samstarfsnefnd um undirbúning kosninga um sameiningu Hafnarfjarðar og Vatnsleysustrandarhrepps. Skýrslan var kynnt á blaðamannafundi sem haldinn var á mörkum sveitarfélaganna tveggja á þriðjudag. Nefndarmenn hvöttu þar alla íbúa til að kynna sér málið til hlýtar áður en gengið verður að kjörborðinu þann 8. október. Úrdrætti úr skýrslunni verður dreift í öll hús í sveitarfélögunum, en auk þess má nálgast skýrsluna í heild sinni á vefsíðum sveitarfélaganna.

Með sameiningu yrði til um 23.000 manna sveitarfélag sem yrði 307 fermetrar að flatarmáli.
Í skýrslunni, sem er unnin á sama hátt og skýrslan um sameiningu Reykjanesbæjar, Garðs og Sandgerðis, er tæpt á stöðu sveitarfélaganna í dag og hugsanlegum afleiðingum sameiningar fyrir íbúa.
Það sem hæst ber í skýrslunni er að þrátt fyrir aukna fjarlægð íbúa Vatnsleysustrandarhrepps við ákvörðunartökuaðila fá þeir í staðinn beinan aðgang að ýmiss konar þjónustu sem þeir sækja nú þegar út fyrir sveitarfélagið. Þá er í burðarliðnum hjá Hafnarfjarðarbæ að taka í gagnið sjálfsafgreiðslu á vefsíðu bæjarins þar sem íbúar geti sinnt erindum sínum gagnvart sveitarfélaginu.

Í skýrslunni eru einnig færð rök fyrir því að hin mikla uppbygging og fólksfjölgun sem hefur átt sér stað í Vatnsleysustrandahreppi síðustu ár geti haldið áfram þó að af sameiningu yrði.
Í skýrslunni segir: „Mannfjöldaþróunin á svæði Vatnsleysustrandarhrepps undanfarið, auk almennrar þróunar búsetu á SV-landi, bendir til þess að áframhald verði á uppbyggingu á svæðinu.
Erlendis hefur þróunin víða verið sú að ungt fólk sækir í búsetu inni í borgum en fjölskyldufólk sækir í úthverfi eða nærliggjandi byggðir og ferðast til og frá vinnu í borgirnar. Þessarar þróunar gætir einnig á Íslandi sem ýtir undir frekari fjölgun bæði í Hafnarfirði og í Vogum.“
Eins og gefur að skilja yrðu áhrif sameiningar mun áþreifanlegri fyrir íbúa Vatnsleysustrandarhrepps, en Hafnfirðinga, enda um mikinn stærðarmun að ræða. Gert er ráð fyrir að nafn sameinaðs sveitarfélags verði Hafnarfjörður, en það mál var ekki rætt á fundum sameiningarnefndarinnar.
Jón Gunnarsson, oddviti hreppsnefndar Vatnsleysustrandarhrepps, sagði á blaðamannafundinum að hreppsnefnd hefði ekki gefið út neina yfirlýsingu um afstöðu gagnvart málinu. Hann bætti því við að slíkt yrði ekki gert nema einhugur yrði í hreppsnefnd.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024