Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Skynsamlegt sé fyrir svæðið í heild að sameinast í eitt sveitarfélag
Þriðjudagur 20. september 2005 kl. 18:32

Skynsamlegt sé fyrir svæðið í heild að sameinast í eitt sveitarfélag

Björk Guðjónsdóttir, forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjarlagði fram eftirfarandi bókun bæjarstjórnar Reykjanesbæjar á fundi nú áðan. Bókunin var einróma samþykkt:

„Bæjarstjórn Reykjanesbæjar er einróma sammála niðurstöðu skýrslu nefndar um sameiningu sveitarfélaganna Garðs, Sandgerðis og Reykjanesbæjar þar sem fram kemur að skynsamlegt sé fyrir svæðið í heild að sameinast í eitt sveitarfélag.

Bæjarstjórnin harmar jafnframt að meirihlutar bæjarstjórna í Garði og Sandgerði hafi ítrekað lýst yfir andstöðu við sameiningu, áður en niðurstöður skýrslunnar voru kynntar. Það er að okkar mati hluti af lýðræðislegu ferli að íbúar fái að kynna sér rök með og á móti áður en þeir taka afstöðu.

Þau mikilvægu hagsmunamál sem tengjast sameiginlegum atvinnusvæðum og bættri þjónustu sveitarfélaga í skólamálum, samgöngumálum og umhverfis- og skipulagsmálum, benda eindregið til að eitt sveitarfélag verði færara um að taka ákvarðanir og veita öllum íbúum aukin og jöfn þjónustugæði.
Við veikjum okkur með því að berjast innbyrðis. Best væri að það heyrði fortíðinni til að sveitarstjórnarmenn á Suðurnesjum þurfi að eyða kröftum sínum í innbyrðis baráttu um íbúa og atvinnutækifæri á svæðinu. Samkeppnin stendur við önnur þjónustusvæði á landinu og til framtíðar einnig erlendis.

Efling sveitarstjórnarstigsins veitir okkur möguleika á að takast á við fleiri verkefni sem ríkið sinnir nú. Það mun þýða að þjónustan verður nær þeim sem þurfa á henni að halda.

Björk Guðjónsdóttir, Árni Sigfússon, Böðvar Jónsson, Jóhann Geirdal, Sigríður J. Jóhannesdóttir, Ólafur Thordersen, Guðbrandur Einarsson, Steinþór Jónsson, Garðar K. Vilhjálmsson, Guðný Kristjánsdóttir, Sveindís Valdimarsdóttir“.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024