Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Skutlari með falsað ökuskírteini
Laugardagur 4. janúar 2020 kl. 12:47

Skutlari með falsað ökuskírteini

Ökumaður sem lögreglan á Suðurnesjum hafði nýverið afskipti af reyndist vera með falsað ökuskírteini. Þá leikur grunur á að hann hafi verið að skutla fólki gegn fargjaldi í Flugstöð Leifs Eiríkssonar þegar lögregla hafði afskipti af honum. Hafði hann auglýst slíka þjónustu á samfélagsmiðlum.

Þá stöðvaði lögregla bifreið sem var á skráningarnúmerum sem tilheyrðu annarri bifreið. Skráningarnúmerið var tekið í vörslu lögreglu.

Ökumaður sem lögreglumenn stöðvuðu vegna gruns um fíkniefnaakstur neitaði sýnatöku á lögreglustöð. Hann var því sviptur ökuréttindum til bráðabirgða á staðnum.

Nokkur umferðaróhöpp urðu í umdæminu í vikunni. Á Reykjanesbraut varð árekstur þegar bifreið var ekið aftan á aðra sem hemlaði snögglega. Annar ökumaðurinn var fluttur á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.
Ekið var á skilti á Grindavíkurvegi og annar ökumaður ók yfir umferðareyju sem hann kvaðst ekki hafa séð þar sem ekkert skilti hafi verið við hana.
Þá varð árekstur á Hafnavegi þegar ökumaður ætlaði að snúa við á honum og þveraði bifreið hans veginn þegar annarri bifrieð var ekið á hana. Fjórir voru í hvorum bíl og sluppu þeir án meiri háttar meiðsla. Bifreiðirnar voru mikið skemmdar og voru þær fjarlægðar með dráttarbifreiðum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024