Skurðstofur HSS: Reykjanesbær bíður eftir svari frá heilbrigðisráðherra
Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra, boðaði það á fundi með Árna Sigfússyni, bæjarstjóra Reykjanesbæjar, í síðustu viku að hann myndi gefa svar um miðja þessa viku, hvort hann veiti heimild til þess að nýta skurðstofur Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja í tengslum við einkarekna heilbrigðisþjónustu í Reykjanesbæ. Árni gekk á fund Ögmundar með þá bón að lokun yrði aflétt af skurðstofunum í Reykjanesbæ og að þar fengist aðstaða til að gera aðgerðir á sjúklingum í tengslum við umfangsmikla einkarekna heilbrigðisþjónustu fyrir erlenda sjúklinga, sem vilji er til að koma upp á Ásbrú í Reykjanesbæ.
Í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í gær segist Ögmundur heilbrigðisráðherra ekki loka á neinar hugmyndir um aðstöðu fyrir einkareknar skurðstofur í Reykjanesbæ fyrir erlenda sjúklinga sem sæki læknisþjónustu hingað til lands. Í samtali við Víkurfréttir í dag sagðist Árni Sigfússon ekki hafa heyrt í ráðherra varðandi þessi mál en á von á símtali nú um miðja vikuna.
Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar hefur á undanförnum mánuðum verið í viðræðum við innlenda og erlenda fjárfesta og rekstraraðila um mögulega uppbyggingu á heilsu- og sjúkrahóteli á Ásbrú.
Í tengslum við þetta verkefni hefur fjöldi innlendra aðila komið að ýmsum úttektum á sjúkrahúsinu til þess að hægt sé að komast að raun um núverandi ástand hússins og þá möguleika sem það býr yfir til uppbyggingar á heilsutengdri starfsemi. THG arkitektar sjá um samræmingu og stýringu verkefnisins fyrir hönd Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar, segir í tilkynningu á vef Ásbrúar, www.asbru.is.
Fyrir helgi komu skandinavískir arkitektar í heimsókn á Ásbrú að taka út grunnskipulag sjúkrahússins. Viðkomandi arkitektar eru sérfræðingar á ákveðnu sviði sem er til athugunar af hálfu stórs erlends fjárfestis, veltengdir honum, og hafa áratuga reynslu við uppbyggingu og umbreytingu sjúkrahúsa.
Ef fyrrgreindar úttektir reynast jákvæðar og aðilar skuldbinda sig verkefninu þá gerir Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar ráð fyrir því að tilboða verði aflað í heildarhönnun sjúkrahússins á komandi mánuðum.
Magnús Orri Schram sagði á Alþingi í gær að hugmyndin væri að nýta vannýttar en fullkomnar skurðstofur Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja í Reykjanesbæ og hugsanlega gæti framtakið skapað allt að 300 störf. Ekki veitti af verðmætaaukningu af þessum toga. Auk þess fengi ríkið borgað fyrir þá þjónustu sem það veitir.
Róbert Wessman, áður forstjóri Actavis, og fyrirtæki hans Salt Invest er er í samstarfi við Mayo Clinic um að hefja rannsóknir hér á landi á þjóðfélagshópum með það að augnamiði að koma í veg fyrir eða draga úr tíðni tilekinna sjúkdóma. Róbert hefur einnig lýst áformum um að koma á fót meðferð fyrir erlenda offitusjúklinga sem fluttir yrðu til landsins, sagði í frétt dv.is af málinu.