Skúli Mogensen opnar hótel á Ásbrú
„Ég er mjög ánægður að vera kominn á heimaslóðir enda fæddur í Keflavík og hlakka til að hefja uppbyggingu á svæðinu,“ er haft eftir Skúla Mogensen, eiganda Títan fasteigna, í fréttatilkynningu þess efnis að fyrirtæki í hans eigu hafi fest kaup á þremur blokkum á Ásbrú. Samtals eru blokkirnar 6.500 fermetrar að flatarmáli og verða tvær þeirra nýttar undir hótelrekstur. Þar er ætlunin að reka lággjalda flughótel með hundrað herbergjum og hótelíbúðum. Fyrirhugað er að opna hótelið í júlí á þessu ári. Lögð verður áhersla á gesti sem staldra stutt við í svokölluðum „stopover“ flugum eða þá sem kjósa að enda ferðalagið sitt nálægt Keflavíkurflugvelli til að ná morgunflugi næsta dag.
Í þriðju blokkinni er nú verið að standsetja 24 íbúðir sem verða í langtímaleigu. „Ég er sannfærður um að Suðurnesin eigi mikið inni enda kallar stækkun flugvallarins og áframhaldandi aukning ferðamanna á mikla fjárfestingu og uppbyggingu á svæðinu sem ætti að verða öllum til góða. Í rekstri hótelsins verður leitast eftir því að eiga gott samstarf með ferðaþjónustunni á Suðurnesjum og kynna fyrir gestum þær perlur sem Reykjanesið hefur að geyma.“