Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Skulda hátt í 300% af árstekjum
Þriðjudagur 29. maí 2012 kl. 20:42

Skulda hátt í 300% af árstekjum


Þrjú af fimm stærstu sveitarfélögunum uppfylla ekki skilyrði sveitarstjórnarlaga um fjárhagsstöðu samkvæmt fréttum RÚV í kvöld. Þar sagði að Reykjanesbær skuldar hátt í 300 prósent af árstekjum, næstum því tvöfalt meira en bærinn má gera samkvæmt lögum. Ekki hefur hins vegar verið útfært hvernig eftirlitsnefnd um fjármál sveitarfélaga tekur á því máli.

Í nýjum sveitarstjórnarlögum sem voru samþykkt í fyrra er kveðið á um að skuldir aðalsjóðs og fyrirtækja sveitarfélags megi ekki fara yfir 150 prósent af árstekjum sveitarfélaga, og að þau skili rekstrarafgangi á hverju þriggja ára tímabili. Þegar hlutfall skulda af tekjum er skoðað hjá fimm stærstu sveitarfélögum landsins kemur í ljós að þrjú þeirra uppfylla ekki fyrra skilyrðið.

Reykjavík skuldar 110 prósent af tekjum, en þá er Orkuveita Reykjavíkur ekki talin með þar sem reglugerðardrög gera ráð fyrir því að hún sé undanskilin í þessum útreikningum. Kópavogur er hins vegar vel yfir lögboðnum mörkum, skuldar 244 prósent af tekjum, og hlutfallið er enn hærra hjá Hafnarfirði, 259 prósent. Akureyri skuldar 140 prósent af tekjum og er því innan marka, en Reykjanesbær skuldar hátt í 300 prósent af árstekjum, næstum því tvöfalt meira en bærinn má gera samkvæmt lögum.

Til stóð að þau sveitarfélög sem stæðust ekki þessar lagakröfur fengju bréf um það í þessum mánuði. Af því hefur ekki orðið þar sem innanríkisráðuneytið hefur ekki enn gefið út reglugerð þar sem eftirlitið er útfært, en slík reglugerð átti að taka gildi 1. maí. Búist er við að það gerist á næstu vikum. Viðkomandi sveitarfélög þurfa síðan í haust að gefa út áætlun til allt að tíu ára um hvernig þau ætla að laga stöðuna, segir í fréttum RÚV.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024