Skref í átt að fullvinnslu sjávarafurða
Marine Collagen ehf. er ungt fyrirtæki í Grindavík stofnað 2018 en er gríðarstórt skref í því að fullvinna þær sjávarafurðir sem á land berast.
Til stendur að framleiða bæði gelatín og kollagen úr fiskroði sem til fellur í hefðbundnum bolfiskvinnslum. Stefnt er að því að vinna 4.000 tonn af roði á ári.
Einungis 10% nýting næst út úr roðinu til framleiðslu á kollageni og gelatíni. Þannig að úr 4.000 tonnum af roði verður hægt að framleiða 400 tonn af kollageni og gelatíni. Átta klukkustundir tekur að ljúka hverri framleiðslulotu úr 7,5 tonnum af roði sem skilar 750 kg. af kollageni og gelatíni. Hægt verður taka þrjár lotur í húsinu á sólarhring og framleiða úr 22 tonnum af roði sem skilar 2,2 tonnum af kollageni og gelatíni.
Gelatínið verður til fyrr í ferlinu en kollagenið er unnið lengra. Ákveðnir eiginleikar gelatíns henta vel fyrir matvæla- og lyfjaiðnaðinn. Dæmi um vörur er matarlím, hjúpur utan um lýsisperlur og margt fleira. Kollagen er eitt helsta uppbyggingarprótein líkamans, það er að finna í öllum liðum, liðamótum, vöðvum, sinum og beinum mannslíkamans. Einnig er kollagen mjög stór hluti af uppbyggingu húðarinnar, hársins og naglanna.
Heimsframleiðsla á kollageni er ekki mikil og verð á vörunni því hátt og eftir miklu að slægjast.
Með allt að 2,2 tonna framleiðslu á báðum þessum efnum á sólarhring verður Marine Collagen með stærstu framleiðendum gelatíns og kollagens úr fiskroði í heimi. Fyrirtækið mun í fyrstu stefna að magnsölu til matvæla-, snyrtivöru- og lyfjaframleiðenda en þegar fram líða stundir er ekki útilokað að Marine Collagen þrói sínar eigin neytendavörur eða í samstarfi við aðra aðila sem búa yfir þekkingu til slíks.