Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Sunnudagur 21. apríl 2002 kl. 00:51

Skrautlegir krabbar í garðskálanum

Olgeir Andrésson skipverji á Erling KE 140 hefur í vetur safnað saman gaddakröbbum sem komið hafa í netin og notað þá til skrauts. Krabbana sýður hann og hreinsar að innan áður en hann mótar þá í hinar ýmsu stellingar. Krabbarnir eru nú sem lifandi í garðskálanum við heimili hans í Keflavík.Olgeir sagðist hafa safnað saman kröbbum og gefið þá í um tvo áratugi en það var ekki fyrr en í vetur að hann fór að safna kröbbum af einhverju ráði. Hann hefur verkað krabbana sem sýningargripi og m.a. selt þá á nokkur veitingahús sem skrautmuni.
Það tekur um hálfan mánuð til þrjár vikur að verka krabbann. Fyrst er hann soðinn og síðan er allt hreinsað innan úr dýrinu eins og hægt er. Þá er hann mótaður í þá stellingu sem hann kemur til með að vera í til frambúðar.
„Þegar krabbinn er orðinn þurr og stífur í réttri stellingu þá er hann lakkaður með lakkúða þannig að hann glansi og sýnist blautur,“ sagði Olgeir í samtali við Víkurfréttir.
Olgeir hefur hugsað sér að fara með krabbana á handverksmarkað í Reykjanesbæ í maímánuði en einnig hefur hann boðið nokkur dýr á sýningu.
Olgeir segir krabbana vera hin merkilegustu dýr. Ef þau missa útlimi þá vex nýr útlimur í staðinn. Olgeir á nokkra svoleiðis krabba sem meðal annars sjást á meðfylgjandi myndum.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024