Skrapp í strætó - endaði í útlöndum
Einar Snorri, 16 ára piltur sem tók strætóinn sem gengur á milli Reykjanesbæjar, Sandgerði og Garðs, fór eitthvað aðeins lengra en hann ætlaði sér. Strætóferðin endaði nefnilega með utanlandsferð til Evrópuborgar með Iceland Express.
Í dag var dregið í Strætóhappdrætti sem Sveitarfélagið Garður, Sandgerðisbær, Hópferðir Sævars og Hópferðir SBK stóðu fyrir á meðal farþega sem nýttu sér samgöngurnar á milli Garðs, Sandgerðis og Reykjanesbæjar. Um 120 happdrættismiðar skiluðu sér inn frá farþegum en um 2400 farþegar notuðu strætisvagnana á þessari leið í október og nóvember.
Það voru ekki bara flugmiðar fyrir tvo til Evrópu með Iceland Express, því einnig var dregið um tvær matarkörfur frá Samkaup. Þær fengu Telma H. Hinriksdóttir úr Garði og Heiðdís Ósk Gunnarsdóttir frá Sandgerði.
Mynd: Frá afhendingu verðlauna í strætóhappdrættinu í dag. Bæjarstjórar Garðs og Sandgerðis voru viðstaddir. Víkurfréttamynd: Hilmar Bragi Bárðarson