Skortur á húsnæði hamlar íbúafjölgun í Vogum
Um síðustu áramót bjuggu 1.287 íbúar í Sveitarfélaginu Vogum. Í upphafi árs 2018 voru þeir 1.266 talsins og fjölgaði því um 21 á árinu.
„Leiða má líkum að því að hamlandi þáttur frekari fjölgun íbúa sé skortur á húsnæði, enda mikil eftirspurn bæði eftir húsnæði til kaups og ekki síður eftir leiguhúsnæði,“ segir Ásgeir Eiríksson, bæjarstjóri í Vogum í vikulegum pistli sem hann sendir frá sér.
Tæp 20% íbúa Sveitarfélagsins Voga eru með erlent ríkisfang. Þar eru pólskir ríkisborgarar fjölmennastir, þeir eru liðlega 55% íbúa með erlent ríkisfang. Næstir þar á eftir eru íbúar frá Litháen og Lettlandi. Þessar þrjár þjóðir eru rétt tæplega 80% þeirra erlendu ríkisborgara sem hér búa.
„Íbúar í sveitarfélaginu eru hins vegar alls með 22 mismunandi ríkisföng, auk íslenskra ríkisborgara. Það má því með sanni segja að við státum af miklum fjölbreytileika og mannauði í sveitarfélaginu okkar,“ segir Ásgeir Eiríksson, bæjarstjóri.