Skortur á byggingarlóðum í Reykjanesbæ
Alvarlegt mál, segir minnihlutinn og mótmælir „lóðalottói“Lóðamál í Reykjanesbæ eru mál málanna í dag enda er mikill skortur á byggingarlóðum fyrir rað- og einbýlishús í bæjarfélaginu. Minnihluti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar deildi hart á frammistöðuleysi meirihlutans í lóðamálum á bæjarstjórnarfundi í síðustu viku. Nú eru engar rað-og einbýlishúsalóðir til úthlutunar í bæjarfélaginu en nýlega var 2 lóðum úthlutað við Ægisvelli í Keflavík, en 16 umsækjendur voru um lóðirnar. Fulltrúar Samfylkingarinnar gagnrýndu meirihlutann fyrir að hafa ekki tímasett framkvæmdir bæjarins við að gera lóðir í Grænásnum byggingarhæfar að loknu deiliskipulagi. Menn hafa lengi litið Nikkelsvæðið hýru auga í tengslum við lóðamálin, en ekki er enn vitað hvenær framkvæmdir þar geta hafist. Kristján Gunnarsson (J) sagði að það hefði fyrir löngu átt að ganga frá nýju deiliskipulagi í Innri-Njarðvík, en það hefur enn ekki litið dagsins ljós. Minnihlutinn lagði fram harðorða bókun varðandi þetta mál og þar segir m.a.: „Íbúar Reykjanesbæjar geta ekki búið við það til lengri tíma að eina von þeirra til að geta reist sér þak yfir höfuðið sé þetta „lóðalottó“, sem fer fram þá sjaldan einhver skilar inn lóð. Ekki fjölgar gjaldendum hér ef menn byggja sér hús annars staðar.“Böðvar Jónsson (D) sagði að þessar athugasemdir minnihlutans væru óþarfar því þeir vissu að skipulagið fyrir Grænássvæðið yrði tilbúið fyrir lok apríl á þessu ári. „Það er ekki nóg að skipuleggja og gera svo ekki neitt. Setjið dagsetningar á hvenær byrja á að byggja“, sagði Kristmundur Ásmundsson (J) þá, og var heitt í hamsi.Ellert Eiríksson (D) benti á að ástand í lóðamálum í Reykjanesbæ væri alls ekki frábrugðið ástandinu í nágrannabyggðum okkar, og tók Kópavog sem dæmi. „Ég veit ekki um það sveitarfélag sem á lóðir á lager“, sagði Ellert og bætti við að 10-15% lóða í bæjarfélaginu væru skipulagðar sem rað- og einbýlishúsalóðir. „Bæjarbúum er að fjölga og það er verið að framleiða íbúðarhús út um allan bæ til að sinna eftirspurn á húsnæði“, sagði Ellert Eiríksson. Jóhann Geirdal (J) átti síðasta orðið að þessu sinni og sagði að það ætti ekki að miða Reykjanesbæ við önnur bæjarfélög, þar sem framboð byggingarlóða væri lítið.