Skorinn í hópslagsmálum
Varnarliðsmaður hlaut skurðsár eftir hópslagsmál á Hafnargötu í Reykjanesbæ í nótt. Fimm aðilar voru handteknir vegna rannsóknar málsins, en maðurinn sem skarst gekkst undir læknisaðgerð og er ekki talinn í lífshættu.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu virðist sem til átaka hafi komið á milli tveggja hópa á þriðja tímanum í nótt.
Rannsókn málsins er á frumstigi en lögreglan í Keflavík fer með rannsóknina og nýtur aðstoðar tæknideildar lögreglunnar í Reykjavík.
Lögreglan biður alla þá sem upplýsingar geta gefið um málið að gefa sig fram við lögregluna í Keflavík, s. 420 2400.