Skorar á Suðurnesjamenn að djöflast í þingmönnum vegna fjárlaga
- Ný fjárlög taka ekki tillit til fjölgunar á Suðurnesjum
Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ segir að fyrstu fréttir innan úr fjárlagafrumvarpi 2019 hljóma ekki vel fyrir Suðurnesjamenn. Hann tekur málið ítarlega fyrir í færslu á fésbókinni í dag.
Þar segir hann: „Í fyrra fórum við í heilmikla greiningu á fjárveitingum ríkisins til SINNA stofnanna og verkefna hér á svæðinu sem sýndi að þar hallaði verulega á okkar svæði, sama hvert litið var. Fjárveitingar til Heilbrigðisstofnunar, Fjölbrautaskólans, Lögreglunnar, samgangna og fleirri verkefna ríkisins pr. íbúa voru ekki aðeins lægri en á öðrum svæðum heldur var ALLS EKKI tekið tillit til þeirrar gríðarlegu fólksfjölgunar sem er á svæðinu og þeirra vaxtaverkja sem henni fylgja. Svo ekki sé talað um þá staðreynd að nú eru um 23% íbúa af erlendu bergi og því fylgja margar áskoranir fyrir alla s.s. skóla, heilbrigðisþjónustu, félagsþjónustu o.s.frv.
Við fjölmenntum á fundi í fjölmörg ráðuneyti, hittum marga ráðherra (höfum þó enn ekki fengið fund með fjármálaráðherra), funduðum með þingmönnum o.s.frv. og í sendinefndinni voru forstöðumenn áðurnefndra ríkisstofnanna s.s. skólameistari FS, lögreglustjórinn, forstjóri Heilbrigðisstofnunnar o.s.frv.
Við fengum góðar móttökur alls staðar og menn töluðu um að þessu þyrfti að breyta. Þá var vinna við 5 ára fjármálaáætlun ríkisins í gangi og okkur sagt að þessi mál yrðu skoðuð í því samhengi. Síðan hófst vinna í ráðuneytunum við gerð fjárlagafrumvarpsins og enn var okkur sagt að tekið yrði tillit til þeirrar stöðu sem við vorum að kynna. Hún yrði ekki leiðrétt í einni svipan en smátt og smátt á næstu árum.
Þessi vinna okkar virðist hins vegar enn ekki hafa skilað sér sem eru gríðarleg vonbrigði ef satt reynist. Það getur þó átt eftir að breytast því nú er þingið með frumvarpið í höndunum og mikivægt að við þrýstum á þingmenn. Ég skora því á ALLA Suðurnesjamenn að djöflast nú í þingmönnum og gera þeim grein fyrir stöðunni,“ segir Kjartan Már Kjartansson í færslunni.
Nokkrir þingmenn frá Suðurnesjum skrifa athugasemdir við færslu Kjartans.
Ásmundur Friðriksson þingmaður Sjálfstæðislfokksins segir skrifar:
„Við munum leggja okkar að mörkum til að loforðin verði efnd. Fjárlögin eru nú til meðferðar í þinginu og Fjárlaganefnd fram eftir hausti og við skulum sjá hverju [þ]eir svar sem gáfu loforðin“.
Silja Dögg Gunnarsdóttir þingmaður Framsóknarflokksins skrifar:
„Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki enn lesið frumvarpið almennilega. Væri gagnlegt að taka fund og fara vandlega yfir tölurnar sem snúa að stofnunum á Suðurnesjum. Ég mun að sjálfsögðu hamast eins og ég get til að ná fram nauðsynlegum úrbótum fyrir okkur hér á svæðinu“.
Oddný Harðardóttir þingmaður Samfylkingar skrifar:
„Ég tel að þrýstingur frá Suðurnesjamönnum skipti máli, að þeir styðji við það sem að þingmenn leggja til á þingi til að bæta stöðu svæðisins. Það skiptir litlu hvað stjórnarandstöðuþingmenn gera ef þeir fá ekki sýnilegan stuðning frá sveitarstjórnarmönnum og íbúum. Ég er að tala um greinaskrif, viðtöl, opna fundi, gera tölur um íbúafjölda og fjárveitingar sýnilegar og slíkt. Það er líka hægt að ganga of langt og fá virka mótmælin ekki. Ég mæli t.d. ekki með að loka Reykjanesbrautinni sem vekur bara upp reiði og veldur sumum tjóni sem þurfa að fara þar um.
Færsla Kjartans á Facebook: