Skorar á sjávarútvegsráðherra að auka við aflaheimildir
Atvinnu- og hafnaráð Reykjanesbæjar skorar á sjávarútvegsráðherra að auka við aflaheimildir.
„Staða margra sveitarfélaga og hafnarsjóða er slæm og með boðuðum niðurskurði á fjárlögum s.s. aukaframlagi í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og niðurfellingu á endurgreiðslu vegna tryggingagjalds, munu erfiðleikar þeirra aukast til muna.
Aukin úthlutun á aflaheimildum er kjörin leið til að auka tekjur hafna og sveitarfélaga.
Hægt er að auka aflaheimildir í mörgum tegundum án þess að gengið sé á fiskistofna til dæmis með breytingu á aflareglu,“ segir í ályktun sem ráðið samþykkti á síðasta fundi sínum.
„Skiptar skoðanir eru um mælingar og ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunarinnar en þó viljum við benda á að samkvæmt mati hennar setur veiði miðað við 25% aflareglu í stað 20% sem er í dag ekki þorskstofn í hættu heldur dregur eingöngu úr vexti hans. Breyting á aflareglu úr 20% í 25% hefði í för með sér að veiði á þorski myndi aukast um 40 þúsund tonn á árinu.
Með slíkri breytingu á aflareglu er tekin skynsamleg ákvörðun í ljósi efnahagsástands og atvinnumála. Slík ráðstöfun hlýtur að vera réttlætanleg til að efla byggðir landsins og skjóta traustari fótum undir atvinnu ásamt því að auka gjaldeyristekjur þjóðarinnar.
Breyting á aflareglu er á valdi sjávarútvegsráðherra og í ljósi þeirra jákvæðu áhrifa sem auknar aflaheimildir hafa á samfélög. Atvinnu- og hafnarráð Reykjanesbæjar skorar á Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra að auka aflaheimildir sem fyrst," segir ennfremur í ályktuninni.