Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Skorað á sýslumenn að stöðva fullnustuaðgerðir
Fjölmenni var á borgarafundi Hagsmunasamtaka heimilanna í Stapa. VF-myndir/pket
Föstudagur 22. mars 2013 kl. 10:38

Skorað á sýslumenn að stöðva fullnustuaðgerðir

Fleiri atvinnulausir en kemur fram á atvinnuleysisskrá, segir bæjarstjóri Reykjanesbæjar. Verkalýðsleiðtogi frá Akranesi segir stóriðju hafa bjargað Vesturlandi.

Skorað er á alla sýslumenn og aðra opinbera embættismenn að stöðva nú þegar allar fullnustuaðgerðir á grundvelli ólögrlegra lána,“ segir m.a. í ályktun sem samþykkt var á fjölmennum borgarafundi Hagsmunasamtaka heimilanna í Stapa í gærkvöldi.

Skuldastaða og slæm fjárhagsstaða heimilanna var mál málanna á fundinum. Framsögumenn voru þau Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, Þórólfur Halldórsson, sýslumaður í Keflavík og Ólafur Garðarsson, formaður Hagsmunasamtaka heimilanna. Sérstakur gestur var Vilhjálmur Birgisson, verkalýðsforingi á Akranesi.

Árni Sigfússon, bæjarstjóri sagði frá því að í raun væri atvinnuleysi mun meira en fram kæmi því hundruð manna fengi fjárhagsaðstoð hjá Reykjanesbæ því það væri dottið út af atvinnuleysisskrá.
Oddný Harðardóttir sagði að glímt hefði verið við skuldavandann allt kjörtímabilið og margvíslegum úrræðum hrundið af stað. Athugun á skuldastöðu heimilanna sýndi glöggt þá óheillaþróun sem átti sér stað í aðdraganda hrunsins og að vandinn hefði verið orðinn umfangsmikill áður en til þess kom. Staða skuldugra heimila hafi batnað en ljóst væri samt að mæta þyrfti enn frekar aðstæðum þeirra sem glíma við mestan greiðsluvanda.

Þórólfur sýslumaður fór yfir alvarlega stöðu mála en hvergi á landinu hafa fleiri uppboð á eignum fólks verið en hér á Suðurnesjum. Þá flutti formaður hagsmunasamtakanna tölu um alvarlega stöðu heimilanna og það sinnuleysi sem þau hafa þurft að þola frá bankahruni.

Frambjóðendur allra flokka fyrir þessar kosningar fengu tækifæri á fundinum til að kynna framboð sín og svo voru leyfðar spurningar úr sal.
Vilhjálmur Birgisson, verkalýðsforingi á Akranesi sagði að stóriðja hefði bjargað Vesturlandi. Þar væri nú 3,3% atvinnuleysi en 9% á Suðurnesjum. Hann harmaði þá vondu umræðu um Norðurál í vikunni og sagði að félagið hefði greitt milljarða í tekjuskatt og fleiri gjöld á undanförnum árum. Aðal málið væri þá sú styrka stoð í atvinnulífinu sem fyrirtækið væri. „Ef við hefðum ekki stórðiðjuna gætum við slökkt ljósin á Akranesi.“ Vilhjálmur sagði það ótrúlega dapurt að vita af álveri í Helguvík sem væri ekki komið í gang. „Ég bara skil það dæmi ekki. Ef þetta væri á mínu svæði myndi ég berjast á hæl og hnakka til að klára það. Það þarf að kalla menn saman og berja þetta í gegn. Þetta gengur ekki svona,“ sagði kappinn og hlaut að launum mikið lófaklapp enda fór hann mikinn í ræðum sínum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Frá fundinum í Stapa.