Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Skorað á sveitarstjórnir að endurskoða samningsumboð
Mánudagur 12. desember 2005 kl. 13:56

Skorað á sveitarstjórnir að endurskoða samningsumboð

Stjórn Starfsmannafélags Suðurnesja skorar á sveitarstjórnir á Suðurnesjum að endurskoða samningsumboð sín til Launanefndar sveitarfélaga. Sveitarfélögin er hvött til að taka upp sjálfstæða, ábyrga og uppbyggilega launastefnu byggða á forsendum sveitarfélaganna.

Í aðdraganda síðustu kjarasamninga við Launanefnd sveitarfélaga var félaginu stillt upp við vegg, þ.e. að samþykkti það ekki að taka upp hið nýja starfsmatskerfi væri ekki grundvöllur af hálfu LN að ganga til samninga við félagið. Í hinu nýja samræmda starfsmati er megin markmið að sömu laun verði greidd fyrir sambærilega vinnu óháð kyni og búsetu. Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar og Reykjavíkurborg eru aðilar að þessu nýja starfsmati. Nýr samningur þessara aðila gerir það að verkum að ofangreind markmið starfsmatsins eru brostin.

Með því að Reykjavíkurborg semji sjálf við viðsemjendur sína í stað þess að fela LN samningsumboðið eins og öll önnur sveitarfélög hafa gert sýnir að Reykjavíkurborg hefur metnað til að sjá sjálf um samningagerðina þar sem launastefnu borgarinnar er komið vel til skila.

Reykjavíkurborg hefur því ákveðið að standa utan við láglaunastefnu LN og sveitarfélögin á Suðurnesjum ættu að gera slíkt hið sama.

Stjórn Starfsmannafélags Suðurnesja óskar því eftir viðræðum við sveitarfélögin á Suðurnesjum um þá stöðu sem upp er komin og hvort það samræmist launastefnu viðkomandi bæjar- og sveitarfélaga að mismuna starfsmönnum þeirra í launakjörum eftir búsetu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Starfsmannafélagi Suðurnesja.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024