Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Skorað á ríkisvaldið að tryggja jafnræði í heilbrigðismálum á Suðurnesjum
Þriðjudagur 20. október 2009 kl. 15:01

Skorað á ríkisvaldið að tryggja jafnræði í heilbrigðismálum á Suðurnesjum

Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum ályktaði um heilbrigðismál þar sem skorað er á ríkisvaldið að  tryggja jafnræði í heilbrigðisþjónustu en heilsugæslum í Garði, Sandgerði og Vogum hefur þeim verið lokað.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, haldinn í Reykjanesbæ 17. október 2009, skorar á þingmenn kjördæmisins og heilbrigðisráðherra að tryggja jafnræði í heilbrigðisþjónustu í landinu. Í Garði, Vogum og Sandgerði hefur heilsugæslustöðvum verið lokað, en í þeim sveitarfélögum búa samtals um 4.500 manns. Sambærilega stór sveitarfélög búa öll við heilsugæslu í heimabyggð. Íbúar á Suðurnesjum eiga rétt á því að búa við jafngott aðgengi að heilbrigðisþjónustu og önnur landssvæði.
Gríðarleg fjölgun íbúa hefur verið á Suðurnesjum á síðustu árum og opinber þjónusta á borð við heilsugæslu og sjúkrahússtarfsemi verður að taka mið af slíkum samfélagsbreytingum. Þrátt fyrir nauðsynlega hagræðingu í ljósi efnahagsaðstæðna, þá er mikilvægt að sá niðurskurður sem átt hefur sér stað og mun eiga sér stað verði ekki til þess að draga úr grunnþjónustu. Fjárveitingar til HSS hafa árum saman verið mun lægri í krónum talið en annars staðar á landinu og ekki í takt við íbúafjölgun á svæðinu. Það er því krafa aðalfundarins að stofnunin fái nauðsynlegt fjármagn til reksturs áranna 2009 og 2010 og einnig til framtíðar, svo tryggja megi góða heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum.