Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Skorað á ríkisvaldið að styðja við uppbyggingu í Helguvík
Mánudagur 5. október 2015 kl. 14:01

Skorað á ríkisvaldið að styðja við uppbyggingu í Helguvík

- Ráðast þarf einnig í framkvæmdir við hafnirnar í Sandgerði og Grindavík

Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, haldinn 2.-3. október 2015 skorar á ríkisvaldið að styðja við uppbyggingu í Helguvík. Þessa daganna er verið að reisa kísilver United Silicon og gert er ráð fyrir að uppbygging Thorsil hefjist á næsta ári. Uppbygging í Helguvík hefur tekið á fjárhagslega hjá Reykjanesbæ og fyrirsjáanlegur er töluverður kostnaður við áframhaldandi uppbyggingu á næstu árum.

Fundurinn leggur til við hlutaðeigandi að fyrirhuguðum hafnarframkvæmdum sem og kostnaði vegna fyrri framkvæmda verði sett á fjárlög 2016. Jafnframt verði horft til þess að á næstu fjórum árum þar á eftir komi fjárframlög. Lagt er til að hluti þessara fjárframlaga byggi á forsendum hafnarlaga nr. 61/2003 og vegalaga nr. 80/2007 og hluti verði vegna sérlaga um sértakan stuðning.

Aðalfundurinn bendir á að þjóðhagslegur ávinningur framkvæmda í Helguvík er margfaldur umfram þau fjárframlög sem óskað er eftir að lagt verði í verkefnið. Samkvæmt samþykktu svæðisskipulagi Suðurnesja 2008-2024 er gert ráð fyrir því að Helguvíkurhöfn gegni hlutverki sem útskipunarhöfn Suðurnesja og er hún mikilvæg í allri atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum.

Jafnframt kemur fram í Svæðisskipulagi Suðurnesja að hafnirnar í Grindavík og Sandgerði eru skilgreindar sem fiskihafnir og að er ekki gert ráð fyrir nýjum höfnum. Nauðsynlegt er að endurgera þil við Miðgarð í Grindavík og þil í Sandgerðishöfn. Fyrrgreind þil eru frá 1964-1978 og en meðallíftími bryggjuþilja 40 ár. Samkvæmt minnisblaði Vegagerðarinnar um stálþilið í Grindavík, dags. 08.05.2015 kemur fram að ástand stálþilsins er ekki gott enda þilið orðið um 50 ára gamalt. Ástand þekju er ekki gott og ástand bryggjukants þó sýnu verra. Metur Vegagerðin það sem svo að brýn þörf sé á að endurbyggja bryggjuna innan mjög fárra ára. Grindavíkurhöfn er með næstmesta verðmæti afla á hvern metra viðlegukants á landinu. Afar mikilvægt er að allir viðlegukantar séu í notkun og hægt sé að veita þjónustu hratt og örugglega, svo skip komist sem fyrst aftur á sjó til veiða.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Í minnisblaði hafnasviðs Vegagerðarinnar dags. 24.02.2015 um ástand Suðurbryggju Sandgerðishafnar kemur fram að víða hafa myndast göt á stálþilið vegna tæringar og að burðargetan er mjög skert eða aðeins 20% af upprunalegum styrk þilsins. Takmarka hefur þurft þungaumferð um bryggjuna. Brýn þörf er á að allar bryggjurnar séu nothæfar enda er Sandgerðishöfn meðal þeirra hafna þar sem flestar landanir eru á ári hverju.
Metur Vegagerðin brýna þörf á að endurbyggja bryggjurnar í Grindavík og Sandgerði innan mjög fárra ára