Skora á Landsvirkjun að útvega orku til Helguvíkur
Björgvin G. Sigurðsson, 1. þingmaður Suðurkjördæmis og formaður þingflokks Samfylkingar, og Illugi Gunnarsson, þingflokksformaður sjálfstæðismanna, skoruðu í dag í umræðum á Alþingi á Landsvirkjun að breyta bókun sinni frá 8. nóvember 2007 þess efnis að fyrirtækið myndi ekki útvega orku til nýrra álvera á Suðvesturhluta landsins.
Stjórn Landsvirkjun bókaði þess efnið 8. nóvember 2007 að ekki skildi seld orka til nýrra álvera á Suðvesturhorni landsins. Í ljósi breyttra og þyngri aðstæðna í efnahagslífinu skora formenn þingflokka tveggja stærstu flokkanna á Alþingi á Landsvirkjun að breyta þeirri afstöðu sinni og koma að orkuöflun fyrir álver Norðuráls í Helguvík.
„Ég tel afar mikilvægt og raunar að það skipti sköpum fyrir jákvæða þróun íslensks efnahagslíf að Landsvirkjun breyti bókun sinni og komi að orkuöflun til álvers Norðuráls í Helguvík. Á meðan verið er að vinna og finna næga háhitaorku á vegum OR og HS orku til að knýja álverið áfram er mikilvægt að Landsvirkjun komi að verkefninu og útvegi því orku t.d. með þeim 40MW sem eru til reiðu nú í kerfinu. Ef Landsvirkjun gerir þetta ekki gæti það hægt á áformum um álverið í Helguvík og öðrum orkunýtingarverkefnum í þessum landshluta. Svo sem gagnaverum og kýsilverksmiðju í Þorlákshöfn. Því skora ég á Landsvirkjun að breyta bókun sinni og koma að orkuöflun fyrir þessi verkefni og hef óskað eftir fundi með nýjum forstjóra Landsvirkjunar um málið,“ segir Björgvin.