Skólaþjónusta fræðslusviðs mun áfram þjónusta grunnskólann í Sandgerði
Reykjanesbær og Sandgerðisbær skrifuðu á dögunum undir framlengingu á samningi vegna aðkeyptrar þjónustu af skólaþjónustu fræðslusviðs Reykjanesbæjar fyrir grunnskólann í Sandgerði.
Samningurinn, sem er til þriggja ára, nær til skólaþjónustu við grunnskólann, skimunar og ráðgjafar um íhlutun í lestrar- og stærðfræðinámi.
Einnig kennslufræðilegrar ráðgjafar vegna tvítyngdra nemenda, úrræða og fræðslu, t.d. sértæk uppeldisnámskeið. Auk þess nær samningurinn til endurmenntunar fyrir starfsfólk, rekstrarráðgjöf við skólann og eftirlit með gæðum skólastarfs.
Skólaþjónusta fræðslusviðs Reykjanesbæjar hefur það að markmiði að efla skólana á þjónustusvæði sínu sem faglegar stofnanir til að geta leyst þau viðfangsefni sem upp koma í daglegu skólastarfi. Hjá skólaþjónustu starfa kennsluráðgjafar, sálfræðingar og talmeinafræðingar og mótast þjónustan af heildarsýn á aðstæður og hagsmuni nemenda óháð hver það er sem veitir þjónustuna. Þannig skal velferð nemenda ávallt höfð að leiðarljósi.