Skólastjóri Gerðaskóla hættir - „Vinnubrögð samfélaginu til skammar“
Starfslok Péturs Brynjarssonar, skólastjóra Gerðaskóla voru samþykkt á fundi bæjarstjórnar í Garðinum nú fyrir stundu. Allir fjórir fulltrúar meirihluta greiddu atkvæði með því að starfslokasamningur yrði látinn standa. Fulltrúar N- lista, þau Pálmi S. Guðmundsson og Jónína Holm, voru mótfallin og fulltrúi L-lista, Davíð Ásgeirsson, sat hjá. Bæjarstjóra og lögmanni bæjarins verður lagt til að ganga frá starfslokasamningi skólastjóra miðað við 31. desember næstkomandi.
Pálmi lagði einnig fram vantrauststillögu fyrir hönd N- og L- lista, á hendur meirihluta í bæjarstjórn og bæjarstjórans. Hafði hann á orði að vinnubrögð sem þessi væru samfélaginu í Garði til skammar. Eftir að Pálmi hafði lokið máli sínu klöppuðu íbúar hátt og snjallt, en tugir íbúa mætti á fundinn.
Í ræðu sinni sagði Pálmi að meirihluti væri með ólögmætum hætti að segja skólastjórnum upp störfum í skjóli starfslokasamnings. Hann sagði það ljótan leik og sagði að ófagleg vinnubrögð hefðu verið í gangi allt frá því að meirihluti tók við völdum, sem líkja mætti helst við valdníðslu. Sagði hann einnig á Ásmundur bæjarstjóri hefði farið fram í fjölmiðlum með þeim hætti að orðspor skólans og starfsmanna hafi stórlega skaðast. Að lokum sagði Pálmi að framkomu meirihlutans væri ekki hægt að umbera.
Ásmundur Friðriksson, bæjarstjóri, steig næstur í pontu og sagði það frekar óeðlilegt að viðbrögð kæmu frá salnum og bað fólk að koma fram að virðingu við bæjarstjórnina, hvort sem fólk væri sammála henni eða ekki. Sagði hann í ræði sinni að ekki væri um ólöglega uppsögn að ræða, heldur væri þetta samkomulag um starfslok sem að skólastjóri hafi samþykkt og óskað eftir að yrðu. Hann sagði ennfremur að þetta væri niðurstaða málsins og hún ætti sjálfsagt eftir að hryggja marga og að hann skildi ósköp vel að samstarfsmenn styddu við bakið á skólastjóranum.
Blaðamaður Víkurfrétta ræddi við nokkra kennara og starfsmenn skólans eftir að þetta varð ljóst og þau báru meirihlutanum kaldar kveðjur. Þau sögðu að um einelti væri að ræða að hálfu meirihluta bæjarstjórnar og að um algera valdníðslu væri að ræða. Þau voru sammála öllu því sem að Pálmi S. Guðmundsson fulltrúi N-lista lagði fram í vantrauststillögu N- og l-lista.
Mikið fjölmenni sótti fundinn og var fullt út úr dyrum
Börn úr Gerðaskóla afhendu Ásmundi stuðningsyfirlýsingu í garð Péturs Brynjarssonar fráfarandi skólastjóra.
Myndir/EJS ([email protected])