Skólastjórar Heiðarskóla og Holtaskóla hætta
Áframhaldandi niðurskurði í skólastarfi mótmælt. Urgur í kennurum.
Tveir skólastjórar hafa sagt upp á síðustu dögum og vikum í Reykjanesbæ. Í dag greindi Jóhann Geirdal, skólastjóri Holtaskóla á fundi með kennurum skólans frá uppsögn sinni þar sem hann treysti sér ekki lengur að stýra skólanum innan ramma nýgerðrar fjárhagsáætlunar Reykjanesbæjar.
Nýlega sagði Gunnar Þór Jónsson upp störfum í Heiðarskóla án sérstakra skýringa. Heimildamenn VF sögðu að það væri örugglega af sömu ástæðum og hjá Jóhanni Geirdal.
Á fundinum í Holtaskóla sagði Jóhann kennurum skólans að hann hefði ákveðið þegar niðurskurður hófst eftir kreppu að hann skyldi taka þátt í því en nú væri mælirinn hins vegar fullur. Miðað við niðurskurð í síðustu fjárhagsáætlun bæjarins væri ljóst að þjónusta við nemendur myndi skerðast það mikið að hann treysti sér ekki lengur að taka þátt í því. Niðurskurðurinn kemur mest niður á börnum sem þurfa stuðning eða sérkennslu. Einn kennari sagði í samtali við VF að kennarar í Holtaskóla væri brugðið og væru mjög vonsviknir með stöðuna. Jóhann hefur verið vinsæll skólastjóri og starfið hefur gengið mjög vel.
Árangur í skólastarfi í Reykjanesbæ hefur aukist mikið undanfarin ár og einkunnir hækkað en ekki er langt síðan að árangurinn var slakur. Með sameiginlegu og skipulögðu átaki hefur náðst frábær árangur á síðustu árum. Samkvæmt upplýsingum VF sem ekki hafa verið birtar voru þrír skólar í Reykjanesbæ í þremur af fjórum efstu sætunum í stærðfræði í 4. bekk í samræmdum prófum sem haldin voru í haust. Þetta eru Heiðarskóli í 1. sæti, Holtaskóli í 3. sæti og Myllubakkaskóli í 4. sæti.
Gunnar Þór Jónsson, skólastjóri Heiðarskóla sagði nýlega upp störfum í Heiðarskóla.