Skólastarf hefst í Dalshverfi í haust
- Akurskóli sprunginn og þörf fyrir nýjan skóla í Innri Njarðvík
Ákveðið hefur verið að hefja skólastarf í Dalshverfi í Innri Njarðvík í haust. Þetta kom fram á kynningarfundi um nýjan skóla sem haldinn var í Akurskóla á dögunum. Ákveðið hefur verið að koma fyrir bráðabirgða skólahúsnæði á bílastæði þar sem nýi skólinn mun rísa. Húsnæðið verður með kennslustofum, fjölnota sal og starfsmannaaðstöðu. Byrjað verður með kennslu fyrir nemendur í 1. til 3. bekk sem búa í Dalshverfinu. Tímabundna kennsluúrræðið verður rekið undir stjórn Akurskóla að minnsta kosti fyrsta árið og verður því í raun útibú frá Akurskóla.
Að sögn Helga Arnarsonar, sviðsstjóra fræðslusviðs hjá Reykjanesbæ, stóð upphaflega til að setja þrjár nýjar lausar kennslustofur við Akurskóla næsta haust til að bregðast við fjölgun nemenda þar. „Fljótlega eftir áramót kom í ljós að sú leið var ekki fær þar sem uppbyggingin er mun hraðari en við gerðum ráð fyrir. Því var tekin ákvörðun um að setja upp tímabundna kennsluaðstöðu á lóð nýja skólans í Dalshverfi,“ segir hann.
Í dag eru nemendur sem búa í Dalshverfi í árgöngunum þremur 85 talsins og segir Helgi að búast megi við að þeim fjölgi enn til haustsins. Stefnt er að því að jarðvinna við skólann hefjist í sumar. Enn er óljóst hvenær fyrsti áfangi skólans rís en reiknað er með því að hjarta skólans, það er miðrými og þjónustukjarni ásamt öllum kennslurýmum fyrir 1. til 10. bekk, verði tilbúið haustið 2019.
Helgi segir Akurskóla hafa verið sprunginn og því þegar komin þörf fyrir nýjan skóla í Innri Njarðvík. „Nýi skólinn í miðju Dalshverfi er hugsaður sem heildstæður grunn- og leikskóli fyrir allt að 500 grunnskólanemendur og 120 leikskólanemendur.“ Hann mun því fullbyggður þjóna Dalshverfi I og Dalshverfi II ásamt Stapahverfinu.
Mynd úr tillögu Arkís sem bygginganefnd valdi. Mynd/Arkís