Skólastarf hefst á ný fyrir grindvísk börn
Næstu vikur fer skólahald Grunnskóla Grindavíkur fram í Reykjavík. Á miðvikudag, 22. nóvember, býðst nemendum og foreldrum þeirra að koma í heimsókn á nýja starfsstaði og munu kennarar og starfsfólk skólans taka á móti nemendum og sýna þeim aðstöðuna. Skólastarfið mun fara fram á fjórum mismunandi starfsstöðvum í borginni fram að jólaleyfi. Þetta eru þeir staðir sem um ræðir:
1. - 2. bekkur verður í Hvassaleitisskóla
3. - 4. bekkur verður í Víkingsheimilinu (staðsett við hliðina á Álftamýrarskóla)
5. - 8. bekkur verður í Ármúla 30
9. - 10. bekkur verður í Laugalækjarskóla
Þátttaka er valkvæð og mikilvægt að hverju barni verði mætt á eigin forsendum. Foreldrar eru hvattir til þess að eiga opið samtal við börnin sín um hugmyndir þeirra um skólagöngu næstu vikurnar.
Börnum stendur einnig til boða að fara í hverfisskóla þar sem fjölskyldan er búsett. Til þess að innrita barn í hverfisskóla hafa foreldrar samband beint við skólastjórnendur þess skóla.
Staða leikskólabarna
Stefnt er að því að opna leikskóla þar sem börn verði með kennurum sem þau þekkja og jafnvel foreldrum í byrjun til að auka öryggi þeirra. Þegar hugað er að leikskólavist er horft til þess að ákvarðanir sem verða teknar á næstu dögum séu vandaðar og í samræmi við það sem börnunum er fyrir bestu og í samráði við foreldra og starfsfólk leikskóla. Vænta frekari upplýsinga um leikskólastarf á næstu dögum.
Staða starfsfólks leik- grunn- og tónlistarskóla
Fræðslusvið Grindavíkurbæjar leggur áherslu á að starfsfólk leik- og grunnskóla fái tíma eins og aðrir til þess að ná áttum og vinna úr áföllum áður en þau snúa aftur til starfa. Rík áhersla er lögð á aðgengi að handleiðslu fyrir allt starfsfólk grindvískra skóla.
Stuðningur við börn
Börn sem ekki eiga kost á að sækja skóla, eða velja að fara í sinn hverfisskóla þar sem fjölskyldan er búsett, verður veittur sérstakur stuðningur í samræmi við lög um farsæld barna. Skólayfirvöld Grindavíkurbæjar koma til með að setja sig í samband við þá foreldra og kynna nánar þann stuðning sem þeim verður veittur.
Hægt er að sækja upplýsingar og stuðning í þjónustumiðstöð Grindavíkurbæjar í Tollhúsinu við Tryggvagötu 19 eða hringja í sima 420-1100.