Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Skólaslit í október
Miðvikudagur 8. september 2021 kl. 09:51

Skólaslit í október

Í upphafi árs var ákveðið að fara af stað í vegferð með það að markmiði að læra meira og gera betur varðandi drengi og lestur. Kennsluráðgjafar á fræðslusviði Reykjanesbæjar höfðu átt rýnisamtöl við kennara í grunnskólum um lestur og lestraraðferðir. Þar var meðal annars rætt um helstu áskoranir í lestrarkennslu og hvernig mögulegt væri að mæta þeim. Þar var einnig rætt  það sem vel gengur og það sem betur má fara.

Eitt af því sem betur má fara er umræða um drengi og lestur þ.e. að tala meira um það sem þeir geta gert varðandi lestur í stað þess sem þeir geta ekki. Okkur langar að læra af drengjum og hlusta betur á þá. Hvað er það sem þá langar til að lesa? Hvaða leiðir henta þeim best? Hvernig finnst þeim best að tileinka sér lestur. Hver er sýn þeirra? Við viljum sjá breytta orðræðu um drengi og lestur og draga fram allt það jákvæða í leiðinni.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Eftir ótal samtöl kennsluráðgjafa og fulltrúa grunnskólanna vantaði okkur hlekki í keðjuna til að halda áfram. Við höfðum samband við Ævar Þór Benediktsson rithöfund sem hefur mikla reynslu af lestrarverkefnum og hann var tilbúinn að leggja okkur lið, strax í fyrsta samtali. Ákveðið var því næst að sækja um styrk í Sprotasjóð sem var með drengi og lestur sem áherslusvið þetta skólaárið. Þátttakendur í verkefninu eru auk fræðsluskrifstofu allir grunnskólar Reykjanesbæjar, Bókasafn Reykjanesbæjar og  Fjörheimar félagsmiðstöð.

Þar sem við erum eitt lærdómssamfélag hér á Reykjanesi var ákveðið að bjóða nágrönnum okkar í Suðurnesjabæ að vera með og eru því grunnskólar Suðurnesjabæjar og Voga ásamt kennsluráðgjafa þeirra með í verkefninu. Verkefnið fékk styrk og við gátum lagt af stað.  Könnun var gerð í vor á áhugasviði drengja, vilja þeirra og væntingum í lesturs ásamt því að foreldrar fengu sambærilega könnun senda til sín. Við vildum heyra, hlusta og læra af drengjum og feðrum. Hluti drengja í ungmennaráði Reykjanesbæjar kom einnig að undirbúningi verkefnisins. Fjölmargir aðrir hafa sýnt verkefninu velvild og áhuga og verið tilbúnir að leggja okkur lið.

Þegar hugmyndin var þróuð með Ævari Þór kom í ljós að hann var með ákveðnar hugmyndir sem hann langaði að prófa í kringum hrekkjavöku í október. Þessar hugmyndir hentuðu verkefninu mjög vel sem leiddu til þess að verkefnið þróaðist í lestrarupplifun fyrir alla þó svo að fókusinn væri áfram á drengi. Ákveðið var að bjóða öllum krökkum á miðstigi grunnskóla og upp úr á landinu að vera með. Það kostar ekkert að taka þátt, engin skráning og ekkert vesen. Eina sem þarf er að taka þátt og hafa gaman af.

Lestrarupplifunin SKÓLASLIT verður á vefsíðunni www.skolaslit.is og byrjar þann 1. október 2021. Skólaslit er hrollvekja í þrjátíu og einum hluta og fjallar saga Ævars Þórs sem myndlýst er af Ara Hlyni G. Yates um hóp af krökkum sem lokast inni í skólanum sínum á hrekkjavöku. Þar gerast svo sannarlega áhugaverðir og spennandi hlutir, kannið málið og kíkið á www.skolaslit.is .

Fyrir hönd kennsluráðgjafa,

Kolfinna Njálsdóttir