Skólar og stofnanir í Suðurnesjabæ loka tímabundið vegna Covid smita
Nokkur Covid-19 smit hafa greinst meðal starfsfólks á leikskólanum Sólborg og nemenda í Sandgerðisskóla. Vegna þeirrar stöðu sem upp er komin hefur aðgerðastjórn Suðurnesjabæjar ákveðið að loka tímabundið nokkrum stofnunum bæjarins í samráði við viðkomandi stjórnendur.
Leikskólinn Sólborg verður lokaður um óákveðinn tíma meðan smitrakning stendur yfir og þar til tekist hefur að ná utan um ástandið. Þrír starfsmenn þar hafa greinst smitaðir. Skólahald í Sandgerðisskóla fellur niður á morgun, föstudag 5. nóvember. Íþróttamiðstöðin í Sandgerði verður lokuð á morgun föstudag, á laugardag og sunnudag. Félagsmiðstöðin Skýjaborg verður lokuð þar til annað verður ákveðið. Kennsla fellur niður í Tónlistarskólanum í Sandgerði á morgun föstudag og bókasafn Suðurnesjabæjar í Sandgerði verður lokað fram yfir komandi helgi að því er fram kemur á heimasíðu Suðurnesjabæjar.
Þar segir jafnframt:
„Með framangreindum aðgerðum leitast aðgerðastjórn við að koma í veg fyrir að Covid-19 smit dreifi sér í samfélaginu og eru þetta því fyrirbyggjandi aðgerðir fremur en bein viðbrögð við smitfaraldri.
Aðgerðastjórn vonast til að sem fæstir íbúar Suðurnesjabæjar verði fyrir barðinu á veirunni þessa dagana, en staðreyndin er sú að veiran er komin inn í samfélagið okkar og því er nauðsynlegt að beita aðgerðum. Framangreint verður endurmetið fyrir upphaf næstu viku og verður upplýsingum um það komið á framfæri. Íbúar eru því hvattir til þess að fylgjast með heimasíðu Suðurnesjabæjar og samfélagsmiðlum.
Allar frekari aðgerðir, svo sem varðandi sóttkví og smitgát eru ákveðnar af smitrakningu og Almannavörnum og koma upplýsingar um slíkt beint frá þeim aðilum. Af fenginni reynslu og af gefnu tilefni eru allir hvattir til að viðhafa persónulegar smitvarnir sem við þekkjum öll vel og fara eftir leiðbeiningum sóttvarnalæknis og landlæknis.“