Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Skólar á Reykjanesi sýna mikinn vilja til að bætast í hóp UNESCO-skóla á Íslandi
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
sunnudaginn 29. september 2024 kl. 06:03

Skólar á Reykjanesi sýna mikinn vilja til að bætast í hóp UNESCO-skóla á Íslandi

Sextán skólar hafa skrifað undir viljayfirlýsingu um að hefja UNESCO-skólaumsóknarferlið á næstu tveimur árum en kynningarfundur um innleiðingu UNESCO skóla í alla skóla á Reykjanesi var haldinn í Hljómahöll 4. september. Fulltrúum frá öllum skólum á svæðinu var boðið á fundinn ásamt aðilum tengdum Suðurnesjavettvangi.

Hvað felst í því að vera UNESCO-skóli?

„UNESCO-skólar skuldbinda sig til að vinna að verkefnum sem snúa að því að auka þekkingu á málefnum Sameinuðu þjóðanna og Heimsmarkmiðunum. Langoftast eru þetta þverfagleg verkefni sem nýtast í ýmsum kennslustundum og passa vel inni í grunnþætti aðalnámsskrár leik-, grunn- og framhaldsskóla. Flestir skólar vinna í dag fjölmörg verkefni á hverju starfsári sem styðja á einn eða annan hátt við innleiðingu Heimsmarkmiðanna svo umsókn um að gerast UNESCO-skóli er að stóru leyti aðeins alþjóðleg viðurkenning á því starfi og yfirlýsing um að vilja bæta í slík verkefni á komandi árum,“ segir Sigrún Svafa Ólafsdóttir, verkefnastjóri fræðslumála hjá Reykjanes jarðvangi og GeoCamp Iceland.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Sigrún segir að það sé ánægjulegt að sjá hve margir ætla að vera með og tilbúnir að skrifa undir viljayfirlýsingu strax.

„UNESCO-skólaverkefnið er frábært verkfæri til að mynda góð tengsl við alla skólana, á öllum skólastigum í öllum sveitarfélögunum á Reykjanesinu. Ég hef verið að vinna með kennurum úr flestum skólum á svæðinu í ýmsum Evrópuverkefnum sem GeoCamp Iceland hefur haldið utan um, í samstarfi við til dæmis Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum og Reykjanes jarðvang. Í þeirri vinnu hefur komið fram mjög skýr þörf fyrir aukna samvinnu milli skóla og sýnt sig hvað öflugt tengslanet kennara getur skilað miklu inn í skólastarfið.“

Fulltrúar þeirra skóla og aðila sem skrifuðu undir viljayfirlýsingu um að hefja vinnu við að gerast UNESCO-skólar á næstu tveimur árum.

Eva Harðardóttir, formaður Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, var þátttakandi á fundinum. Hún var himinlifandi yfir viðbrögðunum og talaði um að þessi samvinna um Heimsmarkmiðin væri einstök.

„Þetta verkefni er til fyrirmyndar fyrir annað svæðisbundið samstarf og samfélög á landinu sem vilja vinna að sjálfbærri þróun með því að efla staðbundna þekkingu og hnattræna vitund barna og ungmenna, en efling hnattrænnar borgaravitundar er einmitt eitt af meginmarkmiðum UNESCO-skólanetsins.“

„Við í undirbúningsteyminu gætum bara ekki verið ánægðari með viðbrögðin við þessari metnaðarfullu hugmynd sem kemur upprunalega frá Suðurnesjavettvangi,“ sagði Sigrún Svafa.

Penninn á lofti þegar fulltrúar skólana skrifuðu undir viljayfirlýsinguna.

Aðdragandi verkefnisins UNESCO-skólar á Reykjanesi

Frá árinu 2019 hefur verið starfræktur samstarfshópur sveitarfélaganna fjögurra á svæðinu, ISAVIA, KADECO og Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum um innleiðingu Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Samstarfshópurinn fékk nafnið Suðurnesjavettvangur og hefur á síðastliðnum árum haldið samráðsfundi og viðburði sem miða að því að stilla saman strengi í innleiðingunni.

Stór þáttur innleiðingar Heimsmarkmiðanna í hverju samfélagi snýr að skólunum og því mikilvæga starfi sem þar er unnið. Síðustu misseri hefur Suðurnesjavettvangur því verið að skoða með hvaða hætti vettvangurinn getur stutt við skólana og hjálpað þeim að efla það starf sem þegar er unnið innan veggja þeirra. Í þessari vinnu hefur umræða um UNESCO-skóla komið oftar en einu sinni upp sem aðgengileg leið til að styðja við markvissa vinnu með Heimsmarkmiðin. Segja má að staðsetningin á Reykjanesi sé einstök, þar sem allir skólar eru innan skilgreinds UNESCO-jarðvangs. Suðurnesjavettvangur leitaði því til Reykjanes jarðvangs um samstarf sem hefur samþykkt að koma af krafti að þessari vinnu og styðja við það háleita markmið að fá alla skóla á svæðinu með.

Hvað er Reykjanes jarðvangur/Reykjanes UNESCO Global Geopark?

UNESCO, Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna, viðurkenndi Reykjanes sem UNESCO Global Geopark árið 2015. Í daglegu tali er talað um Reykjanes jarðvang eða Reykjanes Geopark. Reykjanes jarðvangur nær yfir sama landsvæði og sveitarfélögin fjögur á Reykjanesi. Þeir aðilar sem eiga aðild að Reykjanes jarðvangi og teljast stofnaðilar eru sveitarfélögin fjögur á Suðurnesjum, Bláa lónið, HS Orka, Þekkingarsetur Suðurnesja, Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum, Heklan, Atvinnuþróunarfélag Suðurnesja og GeoCamp Iceland.

UNESCO Global Geoparks eru svæði þar sem minjum og landslagi sem eru jarðfræðilega mikilvægar á heimsvísu er stýrt eftir heildrænni stefnu um verndun, fræðslu og sjálfbæra þróun. Allir jarðvangar þurfa að hafa eitthvað einstakt á heimsvísu þegar kemur að jarðfræði. Reykjanes er einstakt vegna þess að það er staðsett þar sem Mið-Atlantshafshryggurinn kemur á land, og það endurspeglar allar þær jarðminjar og auðlindir sem hér eru.
Í Reykjanes jarðvangi eru jarðminjar nýttar ásamt öðrum náttúru- og menningarminjum svæðisins til að vekja athygli og skilning á þeim brýnu úrlausnarefnum sem blasa við samfélagi okkar: Sjálfbærri nýtingu auðlinda, samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda og hvernig draga má úr áhrifum náttúruhamfara. Reykjanes jarðvangur vinnur einnig þvert á landamæri og er aðili að stóru alþjóðlegu tengsla-neti í gegnum European Geoparks Network og Global Geoparks Network.

Undirbúningsteymi fyrir UNESCO-skóla á Reykjanesi ásamt Evu Harðardóttur sem er formaður Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi (þriðja frá hægri) og Berglindi Kristinsdóttur sem er framkvæmdastjóri Sambands sveitafélaga á Suðurnesjum (önnur frá hægri).

UNESCO skólar – næstu skref

„Ég er mjög spennt fyrir næstu skrefum, skólar hér á svæðinu eru allir að gera svo frábæra og spennandi hluti. Það að taka þátt í UNESCO skóla uppbyggingunni verður vonandi eingöngu til þess að gera alla flottu vinnuna þeirra enn sýnilegri í samfélaginu. Margir skólar skrifuðu strax á fundinum undir viljayfirlýsingu um að fara af stað með þetta verkefni á næstu tveimur árum og ég veit að hinir skólarnir eru að ígrunda þetta, það er alltaf hægt að bætast við og enginn er að missa af tækifærinu. Það stendur misvel á hjá skólum og mikilvægt að starfsfólk skólanna taki sameiginlega ákvörðun með hjartanu að fara af stað í þetta verkefni. Okkar von er sú að allir skólar á svæðinu sláist í hópinn á næstu tveimur árum. Umfang verkefnisins er mikið á landsvísu, á Íslandi eru í dag samtals 21 UNESCO skólar en ef allir skólar á Reykjanesi taka þátt, bætast 28 skólar við þá tölu. Til að þetta gangi vel er mikilvægt að samfélagið allt standi með okkur í þessu og því dýrmætt að nú þegar hafa margir stórir aðilar á svæðinu lýst því yfir að þau eru tilbúin til að styðja við þetta verkefni eftir bestu getu. Ef okkur tekst að mynda þetta stóra tengslanet milli skóla, skólastiga og sveitarfélaga þar sem jarðvangurinn er hlutlaus vettvangur til samskipta, er stór sigur unninn. Og samtímis að gera Heimsmarkmiðin sýnilegri í samfélaginu – það er markmiðið,“ sagði Sigrún Svafa að lokum.