Skólahald Grindvíkinga með óhefðbundnum hætti
Jóhanna Lilja Birgisdóttir, yfirsálfræðingur á félagsþjónustu- og fræðslusviði hjá Grindavíkurbæ, sagði á upplýsingafundi Almannavarna í morgun að vinna væri á fullu í að skipuleggja skólastarf fyrir börn úr Grindavík. Ekki væri eiginleg skólaskylda fyrir börn úr Grindavík við þessar aðstæður en hverju barni væri mætt á eigin forsendum.
Jóhanna sagði að samfélaginu bæri að veita börnum tækifæri til að ganga í skóla en aðstæður barna væru mismunandi. Hún hvatti foreldra til að eiga samtal við börn sín um skólagönguna.
Hjá Grindavíkurbæ er nú unnið með tvær leiðir. Önnur þeirra er að öllum börnum stendur til boða að fara í hverfisskólann þar sem þau búa. Hin leiðin er að börn geti sótt svokallaðan safnskóla sem settur verður upp á nokkrum mismunandi stöðum í Reykjavík frá og með næstkomandi miðvikudegi. Foreldrar fá upplýsingar í gegnum Mentor um hvar börnin geta mætt. Skólahald þar verður með óhefðbundnum hætti. Hópum verður skipt niður eftir aldri og kennarar úr Grindavík munu starfa með börnunum. Ekki er skylda að mæta en þessi leið stendur öllum börnum til boða, að því er kom fram á fundinum í morgun.
Þá er verið að vinna að skipulagningu skólastarfs leikskóla með safnskólaformi þar sem börnin komi saman með kennurum og starfsfólki sem þau þekkja. Vænta má frekari upplýsinga um leikskólastarfið á næstu dögum.