Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Sunnudagur 7. apríl 2002 kl. 11:02

Skólagolf á Suðurnesjum

Grunnskólarnir í Reykjanesbæ og Grindavík fengu á föstudag afhent golfsett til notkunar í leikfimikennslu. Forrráðamenn Golfsambands Íslands afhentu skólastjórunum þessar veglegu gjafir í æfingahúsi Golfklúbbs Suðurnesja.Golfkynning og kennsla barna í íþróttahúsum grunnskóla hófst með „Skólagolfi“ fyrir tveimur árum síðan þegar þetta átak GSÍ var kynnt. Um er að ræða kennslumyndbandið „Skólagolf“ og leiðbeiningabók en þeir skólar sem hafa fengið þetta fá að auki „golfpakka“ eða réttara sagt tösku sem inniheldur golfkylfur, golfbolta úr mjúku gúmmíi og gervigrasmottu til að slá á. Tilgangurinn er að íþróttakennari geti látið börn og unglinga fá tilfinningu fyrir golfi í íþróttatímum, eins og um hverja aðra íþrótt sé að ræða. Með myndbandinu og bókinni á hver íþróttakennari að geta fundið það form sem hann vill hafa á kennslunni og telur henta best í kennslustundum.
Hörður Þorsteinsson kynnti Skólagolf fyrir skólastjórunum á Suðurnesjum við afhendinguna á föstudag en Róbert Svavarsson, stjórnarmaður í Golfsambandinu safnaði fé hjá fyrirtækjum á Suðurnesjum til kaupa á Skólagolfinu en það kostar um 50 þús. kr. á hvern skóla. Róbert þakkaði fyrirtækjunum sem tóku þátt í gjöfinni og sagðist hafa fengið 100% mótttökur og fyrir það væri hann þakklátur. Hörður Þorsteinsson, framkvæmdastjóri GSÍ sagði þetta ánægjulegt skref og með þessu væru allir skóla á Suðurnesjum komnir með Skólagolf en áður hafði þetta verið gert í hinum skólunum. Vilhjálmur Ketilsson, skólastjóri Myllubakkaskóla þakkaði gjafirnar fyrir hönd skólanna og sagði þetta koma sér vel. Áhugi á golfi væri mikill og því væri þetta bæði gott fyrir íþróttakennsluna í skólunum og kæmi sér einnig vel fyrir framgang íþróttarinnar.
Fyrirtækin og gjafaaðilar að Skólagolfinu eru: Sparisjóðurinn í Keflavík, Íslandsbanki Keflavík, Hótel Keflavík, Tannlæknastofa Einars Magnússonar, Tannlæknastofa Jóns Björns Sigtryggssonar, Landsbanki Íslands, Olís/Básinn, Fiskval, Hitaveita Suðurnesja, Samkaup, Bústoð, Víkurfréttir, Golfklúbbur Grindavíkur, Krosshús og Lionsklúbbur Grindavíkur.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024