Skökk mynd dregin upp af stöðu bólusetninga á Suðurnesjum
Staða bólusetninga á Suðurnesjum hefur verið í umræðunni síðustu daga en á vefnum covid.is, sem Landlæknisembættið og almannavarnadeild ríkislögreglustjóra standa að baki, kemur fram að hlutfallslega er lægsta hlutfall bólusettra að finna á Suðurnesjum. Samkvæmt nýjustu tölum (9. júlí 2021) hafa í heildina verið gefnir 451.936 skammtar á Íslandi og 264.849 einstaklingar hafa fengið allavega einn skammt bóluefnis. Hæsta hlutfall eftir lögheimili er á Norðurlandi þar sem yfir 75% hafa verið bólusettir en á Suðurnesjum er hlutfallið rétt um 65%.
Sveinbjörg S. Ólafsdóttir, hjúkrunarfræðingur á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, sagði í samtali við Víkurfréttir að sennilega mætti skýra þennan mun á hærra hlutfalli erlendra íbúa á Suðurnesjum en annars staðar. „Margir þeirra erlendu íbúa sem eru skráðir með lögheimili hér, og misstu vinnuna í Covid, hafa snúið til síns heima, ýmist um stundarsakir eða eru alfarnir. Flestir eru þetta Pólverjar og margir þeirra sem hafa farið í frí til Póllands hafa jafnvel þegið bólusetningu þar. Nú, þegar þessar massabólusetningar sem hafa verið í gangi hér hjá HSS eru afstaðnar, tekur við vinna við að skrá inn í kerfið öll þau vottorð sem hefur verið framvísað til okkar af erlendum íbúum svæðisins – þessi vottorð eru ekki enn komin inn í þær tölur sem eru gefnar upp á covid.is. Ég hugsa að þegar allt er talið þá sé hlutfallið hér svipað því sem er annars staðar,“ segir Sveinbjörg.
Sveinbjörg segir að bólusetningar hafi gengið vel og margir hafi mætt á opinn dag þar sem Jansen bóluefni var í boði. „Svo voru margir sem eltu góða veðrið austur og voru kannski ekki að nenna að mæta á boðuðum tíma hingað úr góða veðrinu – en þeir eru búnir að vera að mæta núna og fá Jansen hjá okkur.“
Þeir skjólstæðingar Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja sem óska eftir að þiggja eldra boð um bólusetningu geta sent upplýsingar um kennitölu og símanúmer til HSS ([email protected]) og fá þá boð í bólusetningu með Jansen bóluefni þegar að þeim kemur og hvatti Sveinbjörg alla þá sem hafa ekki enn verið bólusettir fyrir Covid-19 að notfæra sér það.